02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (3130)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Frsm. meiri hl. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú borið fram nokkuð af sínum andmælum gegn þessu frv., sem eru að mestu leyti þau sömu sem aðrir andmælendur þess báru fram við 2. umr. Af því að þessi hv. þm. var ekki við þá, er rétt að svara honum nokkrum orðum, og mun ég þó fara fljótt yfir sögu.

Hv. þm. talaði um það eins og honum þætti það mjög fyrirlitlegt, að skylda menn til að vinna eitthvað, sem að gagni má verða, fyrir sýslufélag sitt. Ég held nú, að yfirleitt allt, sem löggjafarvaldið gerir, gangi meira og minna í þá átt að leggja einhverskonar skyldur á borgarana, hvort sem þeir vilja eða ekki. Og ég held, að ef menn eru skyldaðir til einhvers, þá sé það ekkert fyrirlitlegra, þótt það væri að „moka skít“, heldur en eitthvað annað. Eða heldur hv. þm., að það sé mjög fyrirlitlegt verk að moka skít?

Annars er nú ekkert rætt um það í frv., hvað menn eiga að vinna þennan sjö vikna tíma, og hvort sem það væri að byggja vegi og brýr eða að rækta jörðina, þá eru það ekki annað en heiðarleg störf, sem engin ástæða er að tala óvirðulega um. Ég sé ekki, að löggjafarvaldið geti komizt hjá því að leggja kvaðir á þegnana, enda er ekkert við það að athuga. Aðalatriðið er, að þær kvaðir geti orðið þegnunum til gagns og blessunar og þjóðfélaginu að liði. Nú er það sannfæring höfundar þessa máls, að vinnuskyldan yrði landi og lýð til blessunar, og einmitt af því að við flm. frv. álítum, að svo gæti orðið, berum við málið hér fram.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að vinnuskyldan yrði ekki til þess að auka fólksaflið í þeim sveitum, sem hana tækju upp, því að unglingarnir myndu flýja burt þaðan. Um það er ég honum algerlega ósammála. Svo er um þetta búið, 2/3 að allra kjósenda sýslunnar verða að greiða atkv. með þessu skipulagi, ef taka á það upp, eða næstum því allir þeir, sem kosningu mundu sækja. Og ég tel ekki líklegt, að svo mikill meiri hluti kjósenda gæti nokkru sinni verið í svo algerðu ósamræmi við hina uppvaxandi æsku síns héraðs, að hún mundi flýja undan því skipulagi, sem eldra fólkið óskar eftir henni til góðs.

Ennfremur talaði hv. þm. um hagsmuni kvenfólksins í þessu máli. Ég hefi áður bent á, að ekki þarf annað en að samþ. brtt. um að taka það með. Ég væri fús að ganga inn á þá breyt., ef ekki þarf annað til að bjarga málinu. Höfundur frv. taldi aðeins heppilegra að fara af stað með karlmennina eina í fyrstu. Ég tel sjálfsagt, að kvenfólkið kæmi á eftir og þetta yrði undirstaðan undir almennri lýðfræðslu í landinu.

Hv. þm. minntist á, að með frv. væri verið að draga fjárveitingarvaldið úr höndum Alþingis. Hann hefir víst ekki fylgzt með því, að meiri hl. menntmn. bætti því inn í frv. með sínum brtt., að skólahúsin skyldi byggja eftir því, sem fé yrði veitt til í fjárlögum. (EA: Ég talaði um frv. eins og það var upphaflega flutt). Það liggur nú ekki lengur fyrir til umr. þannig. Það er á flestum frv., sem fram eru borin hér, meira eða minna af agnúum, sem nema þarf burt við meðferð málsins, og yfirleitt standa þau til bóta í ýmsum smáatriðum, og hv. þm. veit, að það er ekkert óeðlilegt við það.

Hv. þm. talaði um, að málið horfði öðruvísi við frá sínu sjónarmiði nú, þegar það væru orðnir Rangæingar einir, sem um væri að ræða. Þó skildist mér hann vera á móti frv. eins og það liggur fyrir, vegna þess að það væri principbrot. Það sama hafði ég á móti till. hv. þm. Borgf. við 2. umr.; að sýsla sé þannig tekin út úr af löggjafarvaldinu. En það, sem hv. þm. taldi betra við frv. eins og það er nú, var það, að ekki mundi a. m. k. fyrst í stað koma sama skriðan af kröfum um skólahúsbyggingar, þótt það væri samþ., eins og komið hefði, ef frv. hefði verið samþ. óbreytt.

Hv. 2. þm. Reykv. minnntist á það, að fjárveitingarvaldið mundi ekki geta staðið á móti þeim skrið, sem mundi koma á sveitar- og bæjarfélögin úti um land, til þess að fá þessi réttindi. Auðvitað kemst slíkur skriður á héruðin, ef þetta fyrirkomulag reynist gott og nothæft, og ég fæ ekki betur séð en að þessi röksemd hv. þm. sé stórt innlegg fyrir málið, ef hann heldur, að því verði svona vel tekið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um mótbárur hans; þær komu flestar fram við 2. umr. og var svarað þá. Hv. þm. Dal. beindi þeirri spurningu til mín, hvort ég væri ekki fáanlegur til þess að fylgja þessu frv. til moldar nú þegar, fyrst ég teldi, að það væri orðið stórskemmt. En ég vil taka það fram, að ég fylgi því bara í þeirri von, að hv. Ed. breyti því í sitt upphaflega form. Og ég vil segja hv. þm. Dal. það, að ég er ófús á það að molda nokkuð, sem hefir von um bata og líf.