02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3136)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Lárus Helgason:

Ég skal gera mitt til að tefja ekki lengi umr. Það er kunnugt í hv. d., að ég vildi í byrjun, að þingið tefðist ekki lengi á þessu máli, en það náði ekki fram að ganga. En ég geri þó ráð fyrir, að málsins vegna verði útkoman ekki betri, því að það er nú sýnt, að það muni ekki ná fram að ganga, sem mér finnst eðlilegt.

Mér þykir það ákaflega einkennilegt, að stór hópur manna, einir 6 hv. þm., skuli fylgja frv. um allvíðtækar skólabyggingar í landinu á sama tíma og búið er að básuna það út fjöllunum hærra, að búið sé að eyða fé landsins í óhæfu í óþarfa skóla. Maður hefir heyrt ekki lítið um þetta. Það er ekkert lítið, sem búið er að deila á stj. fyrir skólabyggingarnar. Ég fer ekki frekar út í það nú. En þetta er bending um, að núna sé ekki tími til þess að vera að ræða um það hér á hv. Alp., hvort það eigi nú að fara að bæta við þessa skóla eða ekki. Það er vitanlegt, að sumt af skólunum, og það okkar beztu skólar, hafa staðið hálftómir um skeið; það eru búnaðarskólarnir. Nú er það víst, að búnaðarskólarnir eru þeir skólar, sem ungir menn hafa mest gagn af að ganga á, miðað við hina ýmsu smærri skóla í landinu. En á meðan ekki er not fyrir 2 fyrirmyndarskóla, meðan þeir eru ekki notaðir til hálfs, álít ég óþarft að vera að hlaupa til að leggja fé til vafasamra skóla til og frá úti um allar sveitir landsins. Ég held, að það sé óhætt að láta þörfina fyrst kalla. því að það er tilfellið, að það þarf enginn að búast við, að landinu verði betur borgið fyrir því, þótt verið sé að streða við að leggja skyldukvöð á hvern og einn einasta mann til skólagöngu. Það er margföld reynsla fengin fyrir því, að það er ekki hægt að sjá mikinn mun á því um margt fólk, sem hefir gengið í skóla, hvort það er nokkuð uppbyggilegra en áður. Ég er ekki með þessu að gera neitt lítið úr skólum yfirleitt; það er gott, að námfúsir unglingar geti átt kost á fræðslu. En hitt er jafn heimskulegt að ætla að skylda hvern og einn einasta mann til að ganga í skóla, að ætla að heimta unglingana frá heimilunum, hvernig sem á stendur. Ég býst við, eins og hv. 2. þm. Reykv., að það mundi mörgum þykja súrt í broti og sér gerðar þungar búsifjar á heimilum, þar sem væri nú einn 18 ára piltur, ef það mætti heimta hann burtu, hvernig sem á stæði. Nei, það er áreiðanlega sannur málsháttur, að „viljugan er hvern bezt að kjósa“. Ég held það væri nær að stuðla að því að senda efnilega pilta á búnaðarskólana, pilta, sem svo, þegar þeir koma þaðan, gætu kennt út frá sér. Ég held, að það væri eins haldgott eins og að fara að taka menn frá heimilunum og láta þá fara að vinna að vegavinnu eða öðru undir meira og minna lélegri stjórn. Því það þarf enginn að halda, að þetta verði neinn dýrmætur verklegur skóli. Ég hefi ekki séð, að vegavinna sé neinn fyrirmyndarskóli í verklegum efnum, eða að það séu verklærðir menn, sem hafa verið ár eftir ár í vegavinnu. Það er heldur ekki von, því að þeir verða oft að fara eftir fyrirskipunum manna, sem hafa ekki fullkomið vit á því, sem þeir eru að segja fyrir um. Og það verður tæplega hægt að búast við að fá hæfari flokksforingja, ef vinna á á fleiri stöðum en áður, sem óhjákvæmilega yrði að vera, ef nokkuð ætti að verða úr framkvæmdum.

Nú, þegar ekki er útlit fyrir, að hægt verði að starfrækja þá skóla, sem fyrir eru í landinu, þá þykir mér það næsta undarlegt, að menn skuli vera að flytja ár eftir ár frv., sem bætir svo og svo miklu við af skólum, því að það er ekki að vita, nema þessir skólar kunni að þjóta upp eins og bólur, eins og tekið hefir verið fram af hv. 2. þm. Reykv., því að ef eitt hérað byrjaði á þessu, mundi það þykja hart að neita öðrum, og væri bezt að hleypa þeim fénaði ekki í túnið. Ég held, að það sé bezt að láta þetta mál hvíla sig að sinni, að það sé bezt, að þörfin kalli. Ég hefi ávallt verið á móti allri ónauðsynlegri þvingun. Þegar þegnskylduvinnan var til umr. fyrir 20–30 árum, var ég manna harðastur á móti henni. Og ég hefi alltaf verið á móti þessu frv. frá því fyrsta.

Ég er þá búinn í fáum orðum að lýsa því, hvað ég álít þetta óþarft frv., og ég mun greiða atkv. á móti því. Ég tel, að það hefði ekki átt að tefja þingið eins lengi og raun hefir á orðið.