02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (3137)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal verða við óskum hæstv. forseta um að tala ekki lengi, enda hefi ég áður hér í hv. d. gert grein fyrir því, hvers vegna ég flyt þetta frv. Ég býst ekki við, að málið verði skýrt neitt frá því, sem komið er. En ég vil að lokum segja mitt síðasta orð við þessa umr., og þá væntanlega á þessu þingi, því að ég vænti, að ef málið kemst í gegnum þessa umr., sem ég vona, þá geti það gengið gegnum hina d.

Hv. meðflm. mínir hafa nú tekið til máls um frv., og ég sé, að tveir andstæðingar þess hafa kvatt sér hljóðs, svo að ég ætla nú að bæta við nokkrum orðum, svo að þeir geti þá skorið okkur alla niður við sama trog. Því hefir verið haldið fram og okkur borið það á brýn, að lítil heilindi væru í flutningi þessa máls, bæði fyrr og nú, en ég verð að segja, að það sé þá ekki síður ástæða til að segja, að lítil heilindi séu hjá andstæðingum frv. (LH: Þau eru nú miklu meiri). Ég vil taka undir með hv. 2. þm. Skagf., að mér finnst ekki frítt við, að rökin stangist hjá hv. andstæðingum. Það er dálítið einkennilegt að heyra þá fjargviðrast yfir þeirri kvöð, sem frv. leggur á unga menn, jafnframt sem þeir gerast þungorðir um það, að kvenfólkið skuli vera frásneitt þessari kvöð. Ennfremur gera þeir mikið úr þeirri hættu, sem ríkissjóði sé búin, ef frv. hefði verið samþ. sem heimild fyrir héruð landsins almennt, en svo fara þeir, eftir að búið er að binda heimildina við eina sýslu að básúna þann órétt, sem öðrum héruðum sé ger með því að hafa heimildina svo takmarkaða. Það er sem sé leitað að öllum hugsanlegum möguleikum til að hengja hatt sinn á, einn segir þetta og annar segir hitt.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Sk., vegna þess að aðrir hv. flm. hafa nú hrakið annað, sem fram hefir verið borið. Hann taldi það einkennilegt á þessum tímum, þegar svo mikið væri talað um, að of langt hefði verið gengið í eyðslu til alþýðufræðslunnar í landinu, að þá skuli vera farið fram á nýja eyðslu á því sviði í þessu árferði. það má vera, að það sé rétt hjá hv. þm., að of mikið hafi verið veitt til þeirra mála í bili, en enginn þarf þó að ætla, að enn sé fengin sú lausn, sem endast muni um alla eilífð. (LH: Það er þá nógur tími að fara að samþ. um það, þegar ástæður eru til). það er nógur tími, segir hv. þm. Frv. er nú einmitt þannig byggt, að það er ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum, fyrr en Alþingi veiti til þeirra fé í fjárl. En við flm. álítum frv. enga dægurflugu, sem ekki þurfi að samþ. fyrr en um leið og skilyrði séu fyrir hendi. Alþingi hefir ekki afsalað sér neinu valdi, þótt frv. sé samþ. Alþingi á jafnan að hafa síðasta orðið um það, hvort eða hvenær eigi að taka til framkvæmda í þessum efnum. Hv. þm. talaði um það, að bezt væri, að málið fengi að hvíla sig. Það má vel vera, að svo verði, þó að frv. væri samþ. Þetta mál þarf undirbúning í héraði. Rangæingar munu hugsa sig um áður en þeir leggja út í þann mikla kostnað, sem fylgir framkvæmd þessa máls, svo að það er engin hætta á, að í það verði ráðizt, áður en eitthvað birtir til hjá þeim, svo að það má einnig ætla, að þá verði farið að létta undir fæti fyrir ríkissjóði. Það virðist eðlilegt, að farið gæti saman, að þegar Rangæingar treysta sér til að taka á sínar herðar rekstur skólans, væri raknað svo fram úr fyrir ríkissjóði, að hann sæi sér fært að veita fé til stofnunar skólans.

Hv. þm. talaði um það, að betra væri að senda unga menn í búnaðarskólana, sem nú stæðu hálftómir, heldur en fara að stofna nýja skóla. Það er alveg rétt að hvetja menn til að fara í búnaðarskólana, en þeir, sem í þá fara, eru líka undanþegnir vinnukvöðinni. En hitt álít ég ekki rétt að skylda alla til að fara þangað. Við höfum nú þegar tekið í lög skólaskyldu barna 10–14 ára, en það er enginn kominn til að sanna það, að sú skólaskylda verði ekki aukin eða henni breytt. Ég fyrir mitt leyti álít, að einn vetur í skóla fyrir unglinga frá 14–20 ára sé meira virði en 2 vetur á aldrinum 10–14 ára og að það sé alls ekki fullrannsakað mál, hvort ekki væri til bóta að breyta skólaskyldunni.

Það er nokkurnveginn augljóst, að það er ástæðulaust að hræðast útgjöld ríkissjóðs af þessu frv., þegar tekin eru til greina öll þau skáld, sem þetta mál fer gegnum, áður en til framkvæmda kemur. Fyrst þarf yfirgnæfandi meiri hl. í héraðinu til að samþ. þessa ráðstöfun, og því er áreiðanlegt, að það yrði ekki gert öðruvísi en með ráðnum hug sýslubúa. Næst kemur það í vald þingsins að ákvarða, hvort sinna skuli málinu. Í þriðja lagi, ef önnur héruð kynnu að óska þess að koma þessu fyrirkomulagi á hjá sér, sem alls ekki kemur til mála, nema sú reynsla væri fengin, sem fýsileg hætti, og þá er það enn á valdi þingsins að veita eða synja þeim héruðum um leyfi til að taka upp fyrirkomulagið.

Þótt það megi að sjálfsögðu viðurkenna, að skólamál okkar séu yfirleitt komin víða í allllgott horf, þá þarf enginn að álíta, að það sé orðið alfullkomið, heldur mun í þeim efnum verða sífelld framþróun, og það má vel vera, að einmitt þetta frv. sé sá vísir, sem síðast verði það fyrirkomulag, er hallazt verði að.

Að síðustu vil ég segja það, að ég fæ sízt skilið þá andúð, sem þetta mál hefir orðið fyrir hér í hv. þd. hér er þó ekki um annað að ræða en að veita Rangæingum heimild til að reyna þetta fyrirkomulag hjá sér eftir hann formlega undirbúning, sem málið þarf að fá, heimild til að gera tilraun, sem væri mjög merkileg fyrir alla þjóðina.