02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Pétur Ottesen:

Ég hafði ekki ætlað að taka til máls við þessa umr. Það er aðeins að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Rang., að ég geri það. Hann sagði, að með því að samþ. mína till. hefði málið verið eyðilagt og með því hefði verið lýst vantrausti á þýðingu þessa máls, því að það er vitanlegt, að samkv. mínum till. er það lagt á vald Rangæinga að leiða þetta mál fram og sýna gildi þess, þýðingu og yfirburði fram yfir það fyrirkomulag, sem nú er. Það er lagt á þeirra vald að sýna, hvort sú hugmynd, sem vakir fyrir höfundi þessa frv., hefir það gildi, sem bent var á við 2. umr. mér finnst það eðlilegt, að Rangæingar einir leiði þetta í ljós, því að það sýslufélag eitt hefir farið fram á samþykkt þessa frv. Vil ég því leiðrétta það, sem rangt var hjá hv. 2. þm. Skagf., að Rangárvallasýsla hefði ekki óskað eftir þessu, heldur væri það aðeins tengt við einstaka menn þar, því að höfundur frv. væri búsettur þar í sýslunni. Í upphafi grg. frv., eins og það var borið fram á þinginu 1929, stendur: „Frv. þetta er samið af sýslunefnd Rangárvallasýslu og flutt samkv. áskorun aukasýslufundar 24. nóv. 1928“. Þetta tel ég ljóslega sannað, að þetta mál sé framkomið í þinginu fyrir tilstilli Rangárvallasýslu. Með afgreiðslu þess vildi ég gefa sýslunni tækifæri til að koma þessari hugmynd í framkvæmd.

Ég þarf ekki að svara því frekar, að þetta sé skemmdarverk á frv. frá sjónarmiði þessara þriggja hv. flm. Nú fyrst er málið á eðlilegri braut. Það kom fram hjá hv. 1. þm. S.-M., sem er einn af flm., að hann felldi sig betur við frv. í þessum búningi. Hv. þm. Vestm., sem líka er einn flm., lýsti eindregnu fylgi sínu við frv. eins og það er nú, og sagði, að með því að samþ. það, eins og það nú lægi fyrir, væri hægt að fá fullkomna reynslu fyrir því, hvort þessi hugmynd væri svo góð sem þeir álitu. Hv. þm. Mýr. taldi kosti frv. nú fram yfir það, sem áður var, þá, að engin hætta yrði á því, að stefnt verði til meiri kostnaðar en réttlátt væri með því að binda framkvæmd þessa við einungis eitt sýslufélag, m. ö. o. að helmingur af flm. hefði lýst eindregnu fylgi sínu við afgreiðslu málsins á þeim grundvelli, sem það nú liggur fyrir. Jafnvel hefði einn flm. gengið svo langt að telja þessa afgreiðslu heppilegri en að afgreiða frv. í sinni upphaflegu mynd. Hvað því líður, að með þessu frv. hefði verið unnið skemmdarverk á þessu máli, þá er það svo rangt sem framast má vera. Með því að færa frv. í þetta form, þá hefir einmitt verið gerð tilraun til þess að bjarga málinu á þessu þingi. Þetta var eina leiðin til þess, og það var það, sem ég sá. Þó að ég sé ekki sérlega trúáður á þetta fyrirkomulag, þá leit ég svo á, að það væri rétt fyrir þingið að setja sig ekki á móti því, að það sýslufélag, sem mælt hefir með þessu fyrirkomulagi, fái leyfi til að reyna þessa hugmynd, en drepa hana ekki í fæðingunni. Það var einungis þetta, sem mín brtt. byggðist á. Mér var kunnugt um, að aðstaðan í d. var þannig, að frv. myndi hafa verið fellt á þeim grundvelli, sem fól í sér svo viðtæka heimild. En hinsvegar virtist mér leið til að bjarga málinu á þessa braut; og það sýndi sig við 2. umr., að þetta var allt rétt. Ég hefi því ekki unnið hér neitt skemmdar verk, heldur hið gagnstæða, og hafa þessar till. mínar orðið til þess að bjarga málinu hér í d. Og svo framarlega sem því verður auðið að koma til Ed. og fá afgreiðslu þar, þá mun mega segja sama um það. Ég held því, að það, sem hv. 2. þm. Skagf. talaði um, að annaðhvort prestar og þá sérstaklega hreppstjórar væru að jarðsetja þetta frv., hafi ekki við rök að styðjast. Hér er það hreppstjórinn, sem vill halda lífinu í frv. en presturinn, hv. 2. þm. Rang., var á leið með það til grafar. Hefði þá mátt segja, að hann hefði orðið til þess að kasta á það rekunum, eða m. ö. o. að reka endahnútinn á með því.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál.