17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get þakkað hv. þm. Borgf. fyrir undirtektir hans undir þetta frv. Aðalatriðið í þessu máli er það, að hækka bíla- og benzínskattinn, til þess að vega upp á móti hinum mikla viðhaldskostnaði. Hitt er aukaatriði, hvort haldið er óbreyttri skiptingunni á skattinum eða gengið lengra í áttina til brtt. þeirra hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. í Ed. á síðasta þingi. Ég mun ekki ræða það nánara hér, en eiga tal við þá hv.þm., sem hafa haft afskipti af málinu á fyrri þingum, og einnig við þá n., sem fær frv. til meðferðar.

Ég get játað, að sýsluvegasjóðir ættu að fá meira tillag en hér er lagt til. En það er rétt, sem hv. þm. sagði, að bílaskatti þeim, er innheimtur hefir verið til þessa, hefir ekki verið haldið ser, og ég vil benda á, að í fjárlagafrv. hefi ég látið renna saman vegaviðhald og bifreiðaskattinn, sem áður var haldið aðgreindu. Í framkvæmdinni hefir þetta tvennt runnið saman, og því ekki ástæða til þess, að það væri aðgreint í fjárl.

Um einstök atriði frv. mun ég láta nægja að tala við n. og ræða síðan, er n. hefir athugað frv.

Hv. þm. minntist á nokkur atriði, sem koma ekki beint þessu máli við. Ég tel skylt að vekja athygli hans á því, að fjárveitingar til síma og vita eru ekki þar, sem hann mun hafa leitað þeirra, heldur í eignahreyfingum. Þar eru 100 þús. kr. til nýrra símalína og 65 þús. til vita. Þetta eru eignahreyfingar ríkissjóðs og ekki bein útgjöld.

Það er alveg rétt, að í fjárlagafrv. er dregið úr verklegum framkvæmdum, en ég veit ekki, hvenær kreppa leiðir það ekki af sér, að úr verklegum framkvæmdum sé dregið, og sérstaklega er það eðlilegt nú, þar sem verklegar framkvæmdir hafa verið óvenjulega miklar undanfarið.

Það er einnig alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að þingheimur fær að sjái framan í framlengingu á tveimur tollum, en ég veit með vissu, að enginn hefir í einlægni gert ráð fyrir, að hægt væri að fella niður þá tolla. Á síðasta þingi voru þeir framlengdir með miklum atkvæðamun. Þá var talið sjálfsagt að framlengja þá vegna nauðsynjar ríkissjóðs. Og hafi verið ástæða til þess á sumarþinginu, þá er ástæðan nú miklu ríkari.

Hv. þm. gat þess, að árið 1930 hefði gengisviðaukinn og verðtollurinn verið um 3 millj. Ég get bætt því við upplýsingar hans, að árið 1931 voru þeir samtals alls ekki meira en 1800 þús., og ég verð að bæta við, því miður, að á þessu ári munu þessir tollar verða miklum mun lægri. Slík tollalækkun er eðlileg afleiðing ástandsins. Verðtollurinn fer t. d. eftir verði og magni vörunnar, og þarna er yfirvofandi lækkun ennþá, þar sem bæði hefir dregið úr verði og innflutningi verðtollsvara. Það er sýnt, að ekki er einhlitt að treysta á niðurskurð. Við verðum einnig að horfa fram á nokkra skattahækkun. Um þetta mun ég ræða við fjhn., áður en ég legg fram þau frv., sem undirbúin hafa verið, auk þeirra frv., sem nú liggja fyrir.

Ég veit ekki til, að nokkur þjóð hafi von um að komast yfir þá erfiðu tíma, sem nú standa yfir, án þess að viðhafa bæði sparnað og líka hækkun skatta, en þar verður að vera aðgætni, eins og hv. þm. sagði. Um nýja tolla verður að sjá svo til, að það séu framtíðartollar, eins og þessi tollur, sem við höfum lengi vanrækt að leggja á, eða þá að það verða að vera skattar, sem íþyngja ekki atvinnuvegum okkar, sem eru nú nægilega aðþrengdir. Þetta fáum við að ræða nánar á þessu þingi.

Þessir tveir tollar, verðtollurinn og vörutollurinn, eru nú 8 ára gamlir og vöru upphaflega leiddir í lög í harðri kreppu, þó ekki nándarnærri því eins svæsinni og þessari. Þessir tollar voru báðir teknir í lög á fyrsta þinginu, sem ég sat á, þegar stj. þáv. íhaldsflokks var við völd og samþ. af stjórnarandstæðingum. Nú er auðsætt, að það verður að framlengja þessa tolla, og þeir, sem framlengdu þá á síðasta þingi munu sjá, að ekki er minni þörf að framlengja þá nú.