02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

89. mál, ungmennaskóli með skylduvinnu nemenda

Magnús Guðmundsson:

Það eru aðeins örfá orð. Hv. 2. þm. Reykv. gekk inn á það, sem ég sagði, að það myndi líta öðruvísi út í sveitunum, ef þetta frv. hefði verið samþykkt fyrir löngu. En hann segist álíta, að það hafi enga þýðingu að setja slík l. nú vegna fólksfæðar í sveitunum. Þetta er ekki nema fjarstæða, því að ekki er þó neinn hér í d., sem álítur, að eigi að hætta að vinna fyrir sveitirnar, af því að fólkinu hefir fækkað þar. Eftir því sem fólkið er færra í sveitunum, eftir því er meiri þörf á að gera eitthvað fyrir þær, og hlutfallslega verður þessi kvöð ekki neitt þyngri á fólkinu, þótt það sé færra en áður var. En það vinnst minna, þegar fólkið er færra; það er rétt.

Hv. þm. Vestm. áleit ekki, að frv. hefði verið skemmt við 2. umr. hér í d. með till. hv. þm. Borgf., en ég álít frv. stórskemmt. nú getur það ekki náð nema til einnar sýslu, en áður til allra. Um þetta tjáir ekki að deila. Ég mun greiða atkv. með frv., en ekki get ég þakkað hv. þm. Borgf. fyrir hans till., því að það er engin sönnun fyrir því, að frv. hefði ekki gengið í gegn, óbreytt þótt meiri hl. yrði til að samþ. brtt. við 2. umr. Ég geri ráð fyrir, að frv. hefði gengið í gegn óbreytt, hefðu hans till. ekki komið fram, og ég held, að hann hafi ekki haldið lífinu í frv. — Hv. þm. V.-Sk. minntist á það, að hér á landi væru nú ýmsir skólar sama sem tómir og því ekki ástæða til að hugsa um að bæta fleirum við. En ætli það sé ekki dálítið umhugsunarvert, hvort skólafyrirkomulagið sé ekki eitthvað undarlegt og breytinga þörf, þegar sumir skólar standa nær tómir. Ég held, að það væri ekki úr vegi, að reyna, hvort sýslufélögin — eitt eða fleiri, — vildu ekki reyna að veita þar inn einhverju nýju blóði. Hann talaði með mikilli fyrirlitningu um, að vegastörf í sýslunum mundu verða undir ómögulegri stjórn. En aðra eins fjarstæðu minnist ég ekki að hafa heyrt. Hvers vegna skyldu ekki vera til í hverri sýslu hæfir vegaverkstjórar? Ekki er vegamálastjóri í vandræðum með að finna þá, og ekki er hætt við, að héraðsstjórnirnar myndu ekki einnig geta fundið þá.

Hv. þm. S.-Þ. talaði af mestum móði gegn þessu frv., og það er að því leyti eftirtektarverðara, sem það er sjaldgæfara, að hann tekur að sér að rífa niður mál. Ég held það hljóti að vera af því, að hann áliti, að það frjómagn kunni að vera í þessu máli, ef samþ. yrði, að þeim skóla, sem hann hefir fengið komið upp í sínu héraði, yrði hætt. Ef frv. er eins vitlaust og hann heldur fram, þá er ómögulegt að ímynda sér, að hægt sé að fá 2/3 allra kjósenda í heilli sýslu til þess að samþ. þetta fyrirkomulag. Og hér er ekki um annað að ræða en heimildarl., og því getur aldrei orðið um framkvæmd á frv. að ræða, ef ekki eru 2/3 kosningabærra héraðsbúa, er samþ. það. Það er ekki hægt að telja mönnum trú um, að landsmenn séu svo heimskir að láta glepjast af einhverju, sem er tóm vitleysa. Þar sem umr. eru orðnar svo langar, skal ég ekki frekar fara út í málið.