17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (315)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Pétur Ottesen:

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh., að það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að kreppa, og ekki sízt slík kreppa, sem nú er, verði þess valdandi, að draga verði úr verklegum framkvæmdum. En þó er því ekki að leyna, að hefði verið hér gætileg fjármalastjórn á undanförnum árum, þá hefði ríkið ekki þurft að draga að sér hendina um fjárframlög til verklegra framkvæmda, þrátt fyrir yfirstandandi kreppu. En ég verð nú að segja það, að í fjárlagafrv. eru margir og stórir liðir, sem eru þannig, að það liggur miklu nær að byrja að athuga, hve mikið mætti spara með því sumpart að lækka þá og sumpart að fella þá niður. En að því leyti, sem sá niðurskurður nægir ekki, þá er eðlilegt, að það verði að koma niður á verklegum framkvæmdum.

Hæstv. fjmrh. upplýsti nú, að tekjur af verðtollinum og gengisviðaukanum hafi orðið miklu minni árið sem leið en árið áður, og mundu verða ennþá minni á þessu ári. En um síðasta ár er það að segja, að á sumarþinginu var það upplýst, að á fyrri hluta ársins hefðu þær tekjur orðið líkar og aður. Þessi lækkun hefir þá orðið á síðari hluta ársins, og skal ég ekkert rengja það. En það verður að gæta þess, að tekjurýrnun ríkissjóðs verður að mæla með því einu að draga úr útgjöldunum, það er allsendis ófær leið að ætla sér að demba nú á nýjum skattaalögum, því fjárhagsafkomu landstnanna er nú svo komið, að þeim veitist áreiðanlega nógu örðugt að standa straum af þeim skattgreiðslum, sem fyrir eru, þó þar sé ekki aukið á. Allri viðbót í því efni er áreiðanlega ofaukið.

Það er náttúrlega mikið til í því, að þingmönnum mun hafa verið það nokkurn veginn ljóst, er þeir settust að þingstörfum nú, að þess mundi enginn kostur að draga úr skattaálögum landsmanna. En hinsvegar verður líka að játa það, að það er einungis vegna fjármálasynda undanfarandi ára, að það er ekki hægt. Það er vegna þess, hve illa hefir verið haldið á afrakstri þeim, sem fallið hefir í skaut þess opinbera af atvinnuvegum landsmanna.

Það er sagt, og það með réttu, að það þýði ekki að sakast um orðinn hlut. En slíkir viðburðir sem þessir eiga þó að vera okkur reynsluskóli, sem kennir okkur, hvernig við eigum að haga framkvæmdum okkar í framtíðinni. Að þessu leyti getum við skorið upp ávöxt af þessum viðburðum. Þeir eiga að verða til þess að opna augu manna fyrir því, að það verður eftirleiðis að reka búskap ríkisins með miklu meiri gætni og fyrirhyggju heldur en gert hefir verið í tíð framsóknarstj.