03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (3153)

159. mál, framfærslulög

Jón Baldvinsson:

Ég var búinn að heyra eitthvað svipað áður frá hv. 3. landsk. viðvíkjandi þessu frv., og hann viðurkenndi, að þetta væri svo stórar breyt., að hann hugsaði ekki til að samþ. þær. Hann segir, að þetta mál þurfi meiri undirbúning og rannsókn en það hafi fengið, og með því að vísa því til stj. náist þetta. Nú víkur einmitt svo við, að stj. hefir haft með höndum rannsókn og undirbúning fátækrafrv., sem kom hér fram á þinginu, og mér heyrðist á þeim allshnm. og ýmsum öðrum hv. dm., að þeir væru ekki ánægðir með þann undirbúning og lítið á þeim skýrslum að græða, sem voru, að því er mig minnir einungis yfir stutt tímabil, eitt ár eða svo. Ég býst því við, að stj. sé búin að leggja af mörkum það, sem hún ætlar sér, og að þingið verði að skera úr því, hver vilji þess er í þessu máli og ákveða sjálft, hvort samþ. skuli þær till. stj., sem hér liggja fyrir, en þær eru lítilsháttar breyt. á fáum gr. fátækral. og engin aðalatriði eru þar tekin, heldur smákrukkað í þetta gamla fyrirkomulag. Í þeirri grg. er þó játað, að viðskipti sveitarfélaganna séu orðin svo erfið og stappið á milli þeirra svo mikið, að þörf sé á að leysa úr þvi. Ég vil benda á, að þetta frv. gerir ekki ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram fé fram yfir það, sem nú er. Hinsvegar er í frv. til framfærslulaga haldið því, sem nú er í fátækralögunum, að ef framfærsluþurfi fari eftir læknisráði í sjúkrahús, önnur en holdsveikraspítala eða geðveikrahæli, þá fái hann styrk úr ríkissjóði. Það er þó takmörkunum bundið, hve margir geti hlotið þennan styrk úr hverju hreppsfélagi; þessu er haldið í frv., en í stjfrv. er gert ráð fyrir að verja svipaðri upphæð til greiðslu fyrir þau sveitarfélög, sem verst verða úti út af fátækrakostnaði. Í þessu frv. er aftur á móti aðeins gert ráð fyrir, að stjórnarráðið hafi forgöngu í því að jafna á milli sveitarfélaganna, og er að því vikið í 43. gr., að þar sem ætlazt er til, að stjórnarráðið fái alla reikninga við fátækrakostnað, jafni það honum niður eftir þar til settum reglum, sem ákveðnar eru í þessari sömu gr.

Mér skildist á hv. þm. Hafnf. og hv. 3. landsk., að þeir telja, að eftirþessu frv. myndi verða minna aðhald fyrir sveitarfélögin en nú er. En það kemur þó til þeirra kasta að bera fyrst og fremst mikinn hluta af fátækrakostnaðinum, og þótt það fáist eitthvað endurgreitt síðar meir, þurfa þeir samt að leggja þetta út án þess að vita, hve mikið af því fáist endurgreitt. Það fer eftir niðurjöfnun, sem gerð er e. t. v. ári síðar. Ég held því, að þetta sé misskilningur hjá hv. þm. Hafnf. Það er ekki ætlazt til, að ríkissjóður leggi fram neina peninga fram yfir það, sem nú er.

Það hafa ekki komið fram fleiri aðfinnslur en þetta, og tel ég þær ekki stórvægilegar. Ef hv. þm. Hafnf, er áhugamál að fá þessum lögum breytt og ef hann hefði séð einhverjar veilur í þessu frv., sem hann hefði viljað láta vera öðruvísi, þá er hægurinn hjá að bera fram brtt. til þess að færa það í hið bezta horf. Frv. hefir verið á dagskrá hér í eina tvo daga og því nægilegur tími til þess. Ég held sannast að segja, eins og hv. þm. Hafnf., að þeir, sem hafa borið málið fram í Nd., séu meira að friða sína eigin samvizku, þpar sem þeir gatu tekið málið fyrir og form. n., sem var einn aðalflm., gat séð um, að það væri athugað og afgr. til. d., hvað sem síðar hefði um það orðið. Ég hygg, að ekki verði hjá því komizt, að þetta spursmál verði að leysast á einhvern hátt, en það verður verra viðureignar með hverju ári og hverjum mánuði, sem líður. Og til þess er engin önnur leið en að jafna þessum kostnaði niður á landsmenn eftir einhverjum ákveðnum reglum. Það verður að fara hér svo sem í öðru, að þeir beri byrðarnar, sem geta, og taki þátt í að styðja hina, sem síður mega. Það er þetta, sem er aðalatriðið í frv., en e. t. v. ekki nógu langt gengið. Það hefði mátt leggja á ríkissjóð eitthvað fram yfir það, sem nú er gert í fátækral. Í stjskr. landsins er mönnum veittur sá réttur, að ef þeir hafa ekki nægilegt fyrir sig að leggja, þá geti þeir fengið styrk úr einhverjum opinberum sjóði til þess að halda í sér og sínum lífinu. Ég man ekki, að það sé tekið fram í stjskr., að þetta skuli endilega vera af sveitarsjóði, svo að menn eiga þá kröfu til ríkissjóðs, ef sveitarfélögin bíla. En það er víst komið svo um allmörg sveitarfélög, að þau eru að bíla við greiðslur fátækrakostnaðar. Þau hætta að geta staðið í skilum, hætta að geta fullnægt þessu ákvæði stjskr., að þeir, sem ekki geta framfleytt sér og sínum, eigi heimtingu á styrk úr opinberum sjóði, og þá er enginn skyldur annar en ríkissjóður að koma þar til skjalanna og veita þar úrlausn.

Ég mun láta skeika að sköpuðu um, hvernig fer með frv. þetta og álít ekki til neins að ræða um það, að hv. 3. landsk. hefir gert þá till. að vísa málinu til stj. Stj. hefir þegar skilað áliti um þetta mál, og sé ég ekki neina ástæðu til að vísa því þangað. Það er eins gott að drepa það strax.