10.05.1932
Efri deild: 71. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3168)

636. mál, strandferðir

Flm. (Jón Þorláksson):

Meðal þeirra málefna, sem ríkisgjaldan., er kosin var hér í d., hefir talið rétt að taka til athugunar, voru siglingar þær og skipaútgerð, sem skipaafgreiðsla ríkisins hefir forsjón um. Er hér um að ræða tvennskonar skipaútgerðarrekstur. Annarsvegar strandferðirnar og hinsvegar útgerð strandgæzluskipanna. Þessi þáltill., sem ég flyt, lýtur eingöngu að strandferðunum, en ég vonast til að geta lagt hér fram; áður en þingi lýkur, einhverjar till. viðvíkjandi landhelgigæzlunni og kostnaðinum við hana.

Það hefir orðið svo, að kostnaðurinn við strandferðir ríkisins hefir orðið meiri á síðastl. ári en nokkru sinni áður, eða um 478 þús. kr. rekstrarhalli. Í fjárl. voru áætlaðar 200 þús. kr. til strandferðanna, og hefir umframeyðslan því orðið um 278 þús. kr., eða hún ein orðið meiri en tilkostnaðurinn af strandsiglingunum áður. 1930 var þessi tilkostnaður mestur áður, og vantar þó 10 þús. kr. til þess að hann nái umframeyðslunni einni 1931, því að strandferðakostnaðurinn nam 268 þús. kr. það ár.

Það þarf ekki langt að leita eftir því, af hverju þetta stafar. 1931 heldur ríkið úti tveim strandferðaskipum, en áður aðeins einu, nema nokkurn hluta ársins 1930, þegar skipin voru orðin tvö. Athugun á reikningum strandferðanna sýnir það fljótlega, að ekki er hægt að gera sér miklar vonir um, að verulegar breytingar fáist fram á tilkostnaði ríkisins meðan haldið er úti tveim strandferðaskipum. Að vísu er hægt að spara smáupphæðir um rekstur og útgerðarstjórn skipanna, en þess er ekki að vænta, að það verði neinn verulegur hluti af þeim halla, sem hér er um að ræða, nema gripið sé til þess að fækka strandsiglingunum með því að leggja öðru skipinu upp lengri eða skemmri tíma ársins, því að tilkostnaður verður jafnan hinn sami, ef báðum skipunum er haldið úti. Tekjurnar breytast ef til vill dálítið að vísu, eftir árferði, en rekstrarafkoma Esju undanfarið, meðan hún var rekin ein, ber það þó með sér, að ekki er að vænta þess, að tekjurnar vaxi svo mikið, að neinum verulegum upphæðum nemi. Má því sjálfsagt gera ráð fyrir sama tilkostnaði árlega, að öllu óbreyttu, eða að tekjuhalli ríkissjóðs af strandferðunum nemi hátt á fimmta hundrað þúsunda á ári. Hér við bætist svo það, að ríkið hefir lagt til skipin og greitt andvirði þeirra án þess að fá nokkuð endurgreitt, því að vextir og fyrning er ekki talið með í halla ríkissjóðs, eins og ég hefi talið hann hér, en skipin kostuðu 1350 þús. kr. til samans, og má segja, að tilkostnaðurinn feli í sér það fé, sem lagt hefir verið fram í strandferðirnar, án vonar um endurgreiðslu. — Hér kemur auk þessa til sá halli, sem Eimskipafélagið hefir beðið af þeim strandsiglingum, sem það hefir rekið. Að tilhlutun landsstj. fór fram athugun á þessu af n., sem til þess var skipuð, og áttu sæti í þeirri n. Jörundur Brynjólfsson alþm., Brynjólfur Stefánsson skrifstofustjóri í Sjóvátryggingarfélagi Ísl. og Vigfús Einarsson skrifstofustjóri í atvmrn. Hefir n. gert tilraun til að greina í sundur afkomuna af siglingunum á aðalhafnirnar sérstaklega og aðrar hafnir sér í lagi, og hefir niðurstaðan orðið sú, að siglingarnar á aðalhafnirnar gefa álitlegan tekjuafgang, en hinsvegar er mikið tap á hinum siglingunum, eða að meðaltali 796 þús. kr. á ári þau tvö ár, sem athuganir n. ná yfir. Ég skal játa það, að Grundvöllurinn undir þessum útreikningum n. er óviss um sum atriði og tölurnar ekki eins óyggjandi eins og um rekstrartap ríkisins á sínum strandferðum, en þessar athuganir hafa þó sýnt það að fullu, að strandsiglingar Eimskipafélagsins eru mikill baggi á félaginu, þó að á móti þessum bagga komi reyndar nokkurt framlag frá ríkissjóði. Nam þetta framlag tvö síðustu ár, ef ég man rétt, 145 þús. kr., og má ætla, að nú verði að hækka þetta tillag ríkissjóðs, enda sanngjarnt, að það sé gert, þegar litið er til þess, hve miklar strandsiglingar félagsins eru. Sé gert ráð fyrir því, að afkoman 1931 hafi í þessu efni orðið svipuð og hún var hjá félaginu að meðaltali árin 1929–30, verður samanlagður halli af strandsiglingum ríkissjóðs og Eimskipafélagsins um 1274 þús. kr., og sýnist því sem óhjákvæmilegt sé að gera einhverja verulega tilraun til að koma skipulagi á þessa hluti, svo að hinn árlegi tilkostnaður verði eins lítill og hann getur orðið, þó svo, að sæmilega sé fullnægt þeim aðiljum; sem strandsiglinganna eiga að njóta, og hefi ég því borið fram þessa till., sem felur það í sér að skora á stj. að leita samninga við Eimskipafélagið um það, að félagið taki að sér fyrir eiginn reikning strandferðirnar hér við land og reki þær í sem haganlegustu samstarfi við siglingar millilandaskipanna, gegn hæfilegu framlagi úr ríkissjóði.

Þegar Eimskipafélagið var stofnað, var gert ráð fyrir því, að félagið tæki að sér strandsiglingarnar svo fljótt sem skip yrðu til þess, og var ætlazt til þess, að ríkissjóður legði fram fé til kaupa á skipum til strandsiglinganna. Úr þessu varð þó ekki, vegna stríðstruflananna, sem skullu á áður en til framkvæmda var komið í þessu efni, en um þetta var þó aftur mikið hugsað meðan ég átti sæti í stjórn Eimskipafélagsins, og þær yfirveganir hafa fært mér heim sanninn um það, að hægt er að koma á heppilegri tilhögun um þetta með því að hafa allar siglingarnar á einni hendi. Stjórn Eimskipafélagsins hefir ekki haft þetta með höndum, og hefir enda ekki talið það keppikefli fyrir félagið að fá strandferðirnar, en á þetta mál verður að líta frá almennu sjónarmiði, og felur till. mín í sér að beina málinu inn á þær brautir, sem ætla má, að gefi bezta úrlausn í þessu efni fyrir alla þá aðilja, sem hér koma til greina: ríkið, Eimskipafélagið og notendurna. Hefi ég átt tal um þetta mál bæði við forstjóra skipaútgerðar ríkisins og forstjóra Eimskipafélagsins. Hefi ég ekki beðið forstjóra Skipaútgerðarinnar um leyfi til að hafa neitt eftir honum hér, og skal því ekki heldur gera það, en læt nægja að geta þess, að hann leit svo á, að það mætti telja ofvaxið að halda áfram uppi strandsiglingum ríkisins með 2 skipum, eins og gert er, og lægi beint við að leita úrlausnarinnar undir öðru skipulagi. — Forstjóri Eimskipafélagsins tók vel í málið. Hefir hann að vísu ekki borið málið undir stj. félagsins, enda ekki gefizt tilefni til þess, en hann hefir látið gera uppkast að skipagöngum innanlands í sambandi við millilandaferðirnar, sem byggist á þeirri hugsun, að allar siglingarnar séu í höndum Eimskipafélagsins. Auðvitað er þetta uppkast ekki bindandi eða eina úrlausnin, sem hægt er að hugsa sér á málinu, en það hefir hinsvegar styrkt mig í þeirri sannfæringu, að með þessu er málinu beint inn á réttar brautir, því að það er ekki vafi á því, að siglingarnar verða sízt lakari fyrir landsmenn en þær, sem þeir nú eiga við að búa, en hinsvegar má ganga að því nokkurn veginn vísu, að tilkostnaðurinn verður allmiklu minni. Í till. minni er engu slegið föstu um það, hverja samninga eigi að gera — við Eimskipafélagið í þessu efni, heldur er það undir því komið, hvort unnt er að ná samkomulagi við Eimskipafélag Íslands um þá tilhögun, sem landsstj. — og þá væntanlega þingið síðar — telur haganlegt að ganga að.

En ég vil, með því að bera þessa till. fram í því formi, sem ég hefi gert, undirstrika það, að það er sannfæring mín, að þetta sé sú leið, sem verði að reyna til þrautar, að semja við Eimskipafélag Íslands.

Hv. 3. landsk. hefir borið fram brtt. við þessa till., sem felur í sér að skora á ríkisstj. að íhuga í samráði við Eimskipafélag Íslands, á hvern hátt megi reka strandferðir við Ísland svo, að þær verði sem kostnaðarminnstar og þó sem haganlegastar fyrir landsbúa.

Brtt. segir ekki neitt. Það er náttúrlega skylda hverrar stj. sem er, án þess að henni sé á það bent, að athuga á hvaða tíma sem er, hvaða tilhögun er kostnað arminnst fyrir ríkissjóðinn og jafnframt haganlegast að hafa á hverju því máli, sem undir stj. heyrir. Og þó það segi í brtt., að í þessu máli skuli þetta gert í samráði við Eimskipafélag Íslands, þá er það ekki annað en það, sem stj. getur gert, ef henni þykir það hentugt, án þess að fá áskorun um það.

Ég fyrir mitt leyti tel það rétt að halda því beinlínis fram, að það sé reynt að fá samkomulag við Eimskipafélag Íslands um það, að losa ríkissjóð alveg við strandsiglingarnar og strandferðaskipin, og að Eimskipafélag Íslands taki þær alveg að sér fyrir það endurgjald, sem þær eru verðar, og annist þær alveg á sama hátt og það nú annast siglingar milli hafna innanlands og milli Íslands og útlanda.

Af því að tíminn er nú orðinn nokkuð áliðinn, þá vil ég ekki þreyta hv. dm. með lengri ræðu, en læt mér nægja að öðru leyti að vísa til grg. till. á þskj. 636.