09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (3176)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Pétur Ottesen:

Það má nú segja, að þeir, sem brjóta vilja niður þær varnarráðstafanir, sem felast í lögunum um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi, séu farnir að færa sig upp á skaftið. Í stað þess að dragnótaveiðar eru leyfðar aðeins í 3 mánuði á ári nú, þar sem þær eru ekki alveg bannaðar, eins og sumstaðar er gert, er nú farið fram á, að landhelgin sé opnuð í 8 mánuði, eða jafnvel 81/2 mánuð, ef heimildin, sem meiri hl. n. vill setja nú í lögin, kemst inn í þau og verður notuð af stj. Hér er því stefnt að því að opna allt upp á gátt og rífa allar varnarráðstafanir niður. Má bitast við, að sporið verði stigið til fulls næst og lögin alveg numin úr gildi. Er það og mála sannast, að verði lögunum breytt nú í þá att, sem til er ætlazt, er tæplega mikill söknuður í því, sem eftir er, því að þeir mánuðir, sem veiðin á að vera bönnuð eftir frv., eru einmitt þeir mánuðir, sem engin kvik branda fæst á grunnmiðum, svo að samþykkt frv. er sama og að fella lögin úr gildi.

Frsm. minni hl. hefir sýnt ljóslega fram á, að dragnótaveiðar hér við land hafa ekki orðið Íslendingum nein gullkista. Býst ég við, að þegar allur kostnaður, kaupgjald og veiðarfæri o. þ. h. er reiknað með, megi álykta, að aflinn hafi ekki hrokkið fyrir kostnaði. Á Akranesi var keypt talsvert af þessum veiðarfærum og reynt með þeim innan flóans. Niðurstaðan varð helbert tap og veiðarfærin grotnuðu niður, enda hafa þessar veiðar ekki verið reyndar í tvö ár.

Hæstv. dómsmrh. þarf því ekki að bera neinn kviðboga fyrir því, að fyrirvinnurnar á Akranesi verði settar í tukthúsið, eða dæmdar í sektir fyrir yfirtroðslur á þessum lögum né öðrum.

Hv. frsm. minni hl. minntist á það dæmi, sem liggur næst, þar sem eru hin stórfelldu dragnótakaup á Austfjörðum fyrir 50 þús. kr. Þótt margir, sem veiddu á önnur veiðarfæri, legðu fram afla sinn til kaupanna, fékkst ekki andvirði dragnótanna upp úr aflanum, beinlínis af þeirri ástæðu, að engan kola var að fá, enda höfðu bæði Danir og Færeyingar verið þar áður og verið búnir að ganga svona rækilega frá möguleikum til fiskifanga á þessum miðum. Þetta sýnir ljóslega, hve afli á grunnmiðum gengur fljótt til þurrðar. Frsm. minni hl. hefir einnig bent á, að Vestmannaeyingar þeir, sem verið hafa með dragnót fyrir norðan, hafa ekki aflað nema örlítið upp í kostnað.

Hæstv. dómsmrh. lét svo um mælt, að þessi rýmkun á dragnótatímanum ætti að vera til að forða þjóðinni frá hungursneyð. Ég held, að reynslan hafi sýnt, að grunnmið og flóar þoli ekki lengri veiðitíma með þessu veiðafæri en þann, sem nú er leyfður, ef ekki á að uppyrja þar á skömmum tíma alla veiði, svo að ekkert verði eftir. Þessi rýmkun veiðitímans yrði því ekki til að forða frá neinni hungursneyð, enda hefir ekki skort aflabrögð undanfarið, þótt hart sé í ári.

Hæstv. dómsmrh. kvaðst tala um þetta sem löggæzlumál. Hann sagði, að ekki væri hægt að framfylgja lögunum. Ég býst við, að hann hafi hér átt við atvik, sem gerðust suður með sjó síðastl. haust, er nokkrir menn þar syðra gerðust brotlegir við lögin. En það er óneitanlega hættuleg braut, sem farið er inn á, ef taka á upp þá reglu að afnema hver þau lög, sem einhver brýtur. Siðað þjóðfélag verður ekki byggt upp öðruvísi en að framfylgja lögunum. Ég get ekki séð, að erfiðara geti verið að framfylgja þessum lögum en lögum um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi, og býst ég þó ekki við, að það sé meining ráðh. að afnema þau lög, þó þau séu brotin. Ummæli ráðh. eru því út í hött, en ef ætti að taka þau alvarlega, yrði afleiðingin af þeirri stefnu sú, að alla þá löggjöf ætti að afnema, sem eitthvert erfiði og kostnaður fylgdi.

Hér hefir að nýju verið talað um álit sérfræðinganna í þessu sambandi, en eins og áður hefir verið bent á, virðast skoðanir þessara sérfræðinga, einkum þó Árna Friðrikssonar, stangast á við alla reynslu um þessar veiðar. Ég ber fullkomna virðingu fyrir vísindum og fræðimennsku, en ég get hvorki borið virðingu fyrir né treyst heim vísindum, sem reka sig á almenna reynslu. Bók fiskifræðingsins, sem ég hefi að vísu ekki lesið vandlega ennþá, virðist mér enganveginn geta talizt rólegt, óhlutdrægt vísindarit, heldur miklu fremur ,agitations`-rit, sem berst fyrir því, að allt sé opnað upp á gátt. Það kemur fram í bókinni, eins og í skýrslu hans til þingsins, að hann gengur þess ekki dulinn, að miklar dragnótaveiðar valdi eyðileggingu á kolanum. Þrátt fyrir það vill hann stefna að því að opna landhelgina upp á gátt. Auk þess er það margsannað, að dragnótaveiðar spilla fyrir öðrum fiskveiðum á sama svæði. — Eins og hv. frsm. minni hl. sýndi fram á, er engin trygging fólgin í ákvæðum frv. um möskvastærðina. Hann benti á dæmi, sem hann þekkti af eigin reynd um það, hversu ungviðið, sem lendir í næturnar, kremst og merst í meðförunum, svo að næstum engin branda kemst lífs af í sjóinn aftur. Þetta ákvæði er því hégómi einn, og mig furðar á því, að hv. 1. þm. S.-M. skuli flytja þetta frv. og halda í þetta ákvæði, því að í fyrra lét hann svo um mælt, að hann hefði notað dragnætur og verið sjálfur áhorfandi að því, hve þetta væri alveg þýðingarlaust.

Það má því með sanni segja um þetta frv., að hér er um engar bjargráðaráðstafanir að ræða, heldur hið gagnstæða, því að hér er verið að nema úr gildi öryggisákvæði, sem sett eru til að vernda ungviðið og veita því friðland innan landhelginnar. Þessar öryggisráðstafanir á að nema úr gildi um leið og verið er að gera kröfur til, að landhelgin verði rýmkuð. Með þessu sláum við það vopn úr hendi okkar, að landhelgin eigi að vera griðastaður ungviðisins, og afleiðingin verður sú, að við stöndum miklu verr að vígi eftir en áður um kröfur okkar gagnvart erlendum þjóðum.

Um það þarf ekki að ræða, því að um það liggja fyrir órækar upplýsingar, að Danir eru þess albúnir að freista hér hamingjunnar með dragnótaveiðum, ef löggjöfin stæði ekki í vegi með því að banna dragnótaveiðina yfir sumarmánuðina eða þann tíma, sem aðstaðan til veiðanna er bezt fyrir fjarliggjandi þjóðir. Því fleiri sem veiðarnar stunda, því meiri verður auðvitað eyðileggingin og spillingin, og enginn mannlegur máttur getur spyrnt við Dönum úr landhelginni, ef hún er opnuð upp á gátt, eins og frv. ætlast til. Þótt líklegt sé, að Dönum þættu ekki þessar veiðar fýsilegar til frambúðar, má þó telja víst, að þeir stunduðu þær nægilega lengi til að gereyða stofninn og spilla öðrum fiskveiðum. Síðan þyrfti að setja nýjar takmarkanir, eins og fiskifræðingurinn segir, og ef til vill að setja upp kolaklak, og þá er víst, að kostnaðurinn af því klaki fellur í skaut okkar, en ekki Dana.

Ég vil vænta þess, að menn líti hér fremur á framtíðarhagsmuni en ímyndaða stundarhagsmuni, því að annað næst ekki með þessari opnun. Vera má, að þeir beri hærri hlut, sem að þessu frv. standa, og fái skemmdartill. sína samþ., en augu manna munu opnast, þótt síðar verði, fyrir því, að hér hefir illt verk verið unnið.