09.05.1932
Neðri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3178)

263. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Jón Auðunn Jónsson:

Ég verð að segja það, að eftir þeirri reynslu, er ég fékk af dragnótaveiðum síðastl. haust, þá held ég, að ekki sé um gullnámu að ræða að stunda þá atvinnugrein. Það fóru margir bátar til Austurlandsins til þess að stunda þessar veiðar. Þeir öfluðu sæmilega fyrstu vikuna, en er þeir voru búnir að fara dálítið yfir svæðið, dró úr aflanum og menn sáu fljótlega, að ekki myndi borga sig að stunda þessar veiðar. Líkt þessu gekk til á Vestfjörðum. Þar byrjuðu nokkrir bátar, en hættu fljótlega. Það má vel vera, að veiði þessi hafi gengið svona treglega af því, að menn hér á landi eru yfirleitt óvanir henni. En það er eitt atriði, sem gefur mér ástæðu til þess að halda, að kolaveiðin verði ekki arðvænlegur atvinnuvegur. Kolinn, bæði fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum, er svo smár, að hann er mjög verðlítill á enskum markaði. Félag það, er ég starfaði fyrir, keypti t. d. kola síðastl. haust fyrir 27 þús. kr. Útkoman varð sú, að það vantaði um 1700 kr. til þess, að við fengum það upp, er við gáfum fyrir hann. Eftir þessari reynslu, sem ég hygg, að sé svipuð og hjá öðrum, er keyptu kola síðastl. haust, virtist hann ekki sérstakur nytjafiskur.

Einu sinni keyptum við af bát 9 tonn af kola, þar af seldust 28 körfur vel, á 60 shillings boxið. Hin frá 8–11 shillings og nokkur á 20 shillings. Þá hefi ég og átt tal við mann, er keypti kola á Austurlandi. Reynsla hans var mjög svipuð og okkar, er keypt höfum á Vestur og Suðurlandi. Hér á Suðurlandi var útkoman með kolaveiðarnar mjög misjöfn síðastl. haust. Ein sending, sem send var héðan í október eða nóvember, seldist svo lágt, að það fékkst aðeins upp, sem gefið var fyrir kolann hér. Vantaði alveg fyrir kossum, flutningsgjaldi, vátryggingu o. fl.

Ég er nú alls ekki að fullyrða, að kolaveiðarnar geti e. t. v. ekki orðið arðvænlegri en hin undanfarna reynsla virðist benda til. En það virðist nær fullsannað, að koli, sem veiddur er á grunnu vatni, sé yfirleitt smærri og því verðminni en sá, sem veiddur er í djúpu vatni. Koli undir 12 þuml. er sáraverðlitill, svo verðlítill, að það er beinlínis skaði að hirða hann og selja, auk þess, sem mikið af veiði slíks kola getur orðið til þess að ganga of nærri stofninum. Er því ekki arðvænlegt að stunda kolaveiðar þar, sem svo hagar til, að ekki er hægt að veiða hann nema í grunnu vatni. Annars er það svo, að þessi kolaveiði fer nokkuð eftir því, hversu kunnugir sjómennirnir eru og vanir veiðiaðferðiðni. Ég minnist þess t. d., að koli, sem ég sá hjá dönsku skipi, er fiskaði við norðurland, virtist þó nokkuð stærri en sá, sem Íslendingarnir veiddu. Mismunurinn hygg ég að stafi af því fyrst og fremst, að Danirnir hafi veitt á meira dýpi en Íslendingarnir, og í öðru lagi af því, að þeir voru mjög kunnugir og vanir þessum veiðiaðferðum, þar sem þetta skip hafði t. d. stundað kolaveiðar í samfleytt 5 ár. má því vel vera, að þessir menn og Danir yfirleitt hafi hagnað af kolaveiðunum hér við land, þó að við töpum á þeim, og liggur margt fleira til grundvallar fyrir því en að þeir fái verðmeiri afla. Þeir hafa t. d. færri menn og með lægra kaupi á skipum sínum en við eigum kost á að fá.

Ástæðan fyrir því, að útlendingar hafa ekki stundað veiði þessa hér við land meira en raun hefir á orðið, er sú, hve veiðitíminn hefir verið stuttur. Verði nú horfið að því ráði að lengja hann, þá mun dönskum og færeyskum veiðiskipum fjölga hér að miklum mun. Ég held því, að á meðan við erum að gera frekari tilraun með þessa veiði, læra betur að fiska, afla okkur betri veiðarfæra og kynnast miðunum, þá sé ekki rétt, heldur hreint og beint skaðlegt að opna meira en gert hefir verið í þessu efni.

Meðan ég dvaldi á Húsavík í fyrra fór ég tvisvar sinnum út í skipin og sá, hvernig þau veiddu kolann, og ég get sagt það sama og hv. þm. N.-Þ., að það var ekki svo litað af smákola, sem kom upp. Að sjálfsögðu var honum fleygt út aftur, en meirihlutinn var þá dauður.

Þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. N.-Þ. hafa fært svo skýr rök fram gegn þessu frv., að ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar.