04.03.1932
Neðri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (3186)

61. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Það er að vísu gott að viðhafa alla nauðsynlega varasemi, en þar sem hv. þm. N.-Ísf. fann það helzt að frv., að ekki væri hættulaust, að allur almenningur færi með svæfilyf það, sem nota á við geldingu, þá vil ég vekja athygli á því, að frv. gerir ekki ráð fyrir slíku. Það heimilar aðeins þeim mönnum að fara með lyf þetta, sem hafa lært það og leikni hafa og þekkingu á því að framkvæma geldingar. hér verður aðeins um fáa einstaklinga að ræða, eftir því hvað sýslunefnd telur hæfilegt í hverjum stað. Þessi aðferð hefir þegar verið framkvæmd sumstaðar án þess nokkurt slys hafi orðið af, svo heyrzt hafi. Ég hefi einnig heyrt, að einn hestakaupmaður hafi jafnan haft með sér kloroform, er hann var að kaupa hross. Gerði hann það, ef hann keypti hryssur, sem nýteknar voru frá folöldum, og þær klumsuðu, þá svæfði hann þær, og þeim batnaði klumsið. Sest af því, að ekki hefir þótt hættulegt að fá mönnum lyf þetta í hendur. annars er rétt, að landbn. beri sig saman við dýralækni um þetta atriði.

Hitt, sem hv. þm. talaði um, að réttara væri að láta dýralækna framkvæma geldingar, þá hygg ég, að erfitt myndi að koma því í framkvæmd alstaðar. Nú er það svo, að geldingar hesta verður samkv. l. að framkvæma á ákveðnum tíma. Gæti orðið erfitt fyrir dyralækni að ferðast um svo víðáttumikil umdæmi sem þeir hafa, og margt gæti að þeim kallað annað á sama tíma, sem þeir yrðu að sinna. Svo veit ég, að það er í því dýralæknisumdæmi, sem ég er búsettur í, og svo mun það víðar vera. Það mundi því valda miklum örðugleikum fyrir dýralækna að eiga að framkvæma þetta verk, auk þess sem það yrði óhæfilega dýrt fyrir hestaeigendur. Ég vil halda því fram, að frv. þetta eigi mjög mikinn rétt á sér. En sæju menn sérstaka annmarka á að framkvæma ákvæði þau, sem í því felast, má ræða það nánar við 2. umr.