17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

ég þarf ekki að standa upp til að láta í ljós skoðun mína á þessu frv., ég hefi látið hana í ljós um svipað frv. áður og hefi frá upphafi verið andvígur þessum skatti.

Þessi skattur verður ekki borinn saman við það, sem hann er hjá öðrum þjóðum, því að aðrar þjóðir hafa önnur farartæki, sem annast að miklu leyti alla nauðsynlega flutninga, sem sé járnbrautir, en við höfum engin tæki til landflutninga nema bifreiðar. Aðrar þjóðir skattleggja ekki sín aðalflutningatæki, heldur leggja árlega stórfé til þeirra, svo að flutningur með þim verði sem ódýrastur. Þær líta dýpra en á aurana, sem koma í ríkissjóð, þær líta á þann hagnað, sem stafar af ódýrum samgöngum. Það má nærri geta, þar sem ég alltaf hefi verið mótfallinn því að skattleggja þessi farar- og flutningstæki, bifreiðarnar, að þá muni ég einnig vera mótfallinn hækkun á slíkum skatti. Hitt get ég fallizt á, að rétt sé að skipta skattinum milli hinna ýmsu vegaflokka eins og lagt er til í 8. gr. frv., ef hæstv. stjórn og deild vill fallast á, að þessi skattur verði ekki hækkaður í heild. Ég flutti einmitt eitt sinn, er frv. var á ferðinni um þetta efni, brtt. um að skipta skattinum á líkan hátt og hér ræðir um. En það er líka annað atriði, sem ég get ekki stillt mig um að vekja máls á hér, þó að ég hinsvegar geti sparað umr. að þessu sinni, þar sem ég á sæti í þeirri n., er fá mun þetta mál til meðferðar. Eftir því sem ég veit bezt til, þá er því þannig háttað í öðrum löndum, að skatti þessum er varið til þess að bæta vegina einmitt fyrir þau farartæki, sem hann er tekinn af, en honum eigi hent saman við annað það fé, sem ætlað er til almennra vegagerða, eins og hér hefir gert verið. Ef hér væri breytt um, þá yrði fyrst nokkurt vit í þessum skatti, þá fyrst kæmi hann einmitt þeim til hags, sem greiða hann, og þá gerði hann flutningana ódýrari en ella. En hér er ekki því að heilsa. Þessu fé hefir verið varið til þess að ryðja nýjar slóðir, sumarvegi upp um fjöll og firnindi, og er þá farið eins fjarri tilganginum og hægt er.

Það er líklega óþarft að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann viti til, að samskonar fé sé varið á líkan hátt í öðrum löndum. Mér þótti það hart að heyra hæstv. fjmrh. tilkynna það, að því er virtist með köldu blóði, að í framkvæmdinni hefði þessi skattur undanfarið farið saman við annað viðhaldsfé, þó að með sérstökum lagaákvæðum sé tiltekið, á hvern hátt nota beri þetta fé, m. a. til þess að gera varanlegt slitlag á þjóðvegi, þar sem umferðin er almest. Er það meining stj., að hér sé hún ekkert bundin við að fara eftir lögunum? Já, það má að vísu segja hið sama um störf stj. á fleiri sviðum en þessu, en hún er skyldug til þess að fara eftir lögunum, og ef hún telur þau óheppileg í framkvæmd, þá á hún að reyna að fá þeim breytt.

Ég veit ekki, hvort ég á að þessu sinni að fara langt út í almennar umr. um fjármál, en þó er það hreint ekki óviðeigandi í sambandi við fyrsta skattafrv. á þessu þingi. Mér kom það raunar dálítið á óvart, er hæstv. fjmrh. upplýsti, að þessi bifreiðaskattur yrði um 25% lægri fyrra helming síðastl. árs heldur en var árið á undan. Það er og vitað mál, að tekjur af gengisviðauka og verðtolli eru og til muna minni. Kemur þessi niðurstaða dálítið illa heim við þær upplýsingar, er stj. gaf á þinginu í sumar, að þessir tekjuliðir mundu haldast óbreyttir síðastliðið ár. Það liggur ekkert fyrir, sem sýnir það, að vöruflutningar til landsins hafi breykzt svo síðari hluta ársins, en það virðist ólíklegt þess vegna, að þessi lækkun hafi verið stj. alveg dulin á síðasta þingi.

Hæstv. fjmrh. sagðist gjarnan vilja sjá það ár koma, sem hægt væri að maeta kreppu með því að komast hjá að hækka skatta; en það ár ætti að koma. Það ætti að vera augljóst, að kreppu fylgja jafnan auknir örðugleikar atvinnuveganna á því að borga skatta, og þá ætti það að vera markmið hverrar stj. að geta lækkað þá. Að vitna í erlenda reynslu sannar ekkert í þessu máli annað en það, að þar hefir máske verið farið eins óviturlega að og hér. Og þó að ráðh. hafi ekki von um, að slíkt ár megi upp renna hér á landi, þá er það samt ekkert annað en það, sem komið hefir fyrir. Við höfum fyrir skömmu lifað það kreppuár, þegar skattar lækkuðu, en verklegar framkvæmdir héldust í sama horfi.

Þá fannst mér ekki alveg hugsunarrétt svar hæstv. fjmrh. til hv. þm. Seyðf., á þá leið, að ekki væri hægt á krepputímum samtímis að lækka opinbera skatta og að auka framkvæmdir. Það var eins og hann virtist ekki sjá þann möguleika að eiga eitthvað til, þegar kreppa skellur á, — safna á góðu árunum og geyma til harðæranna til þess að minnka þá atvinnuleysið með auknum framkvæmdum ríkisins án þess að auka um leið skattaálögur.

Yfir þetta land hafa nú um skeið komið eindæma góðæri, sem hafa skapað ríkissjóði um 15 millj. kr. tekjur fram yfir áætlun. Væri það svo ólíklegt, að eitthvað af þessu fé hefði mátt geyma til erfiðu áranna?

Það er hinsvegar alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að eins og nú standa sakir, verður ekki hægt að mæta þessari kreppu öðruvísi en með miklum niðurskurði verklegra framkvæmda eða auknum álögum, eða hvorutveggja. En ég vil ekki heyra það, að þetta sé einhver alveg sjálfsögð og ófrávíkjanleg regla, sem hljóti jafnan að gilda í framtíðinni; ég vil ekki heyra slíkt úr sæti fjmrh.

Þá þótti mér það heldur ekki nógu viturleg kenning, er hann virtist halda fram og er samhljóða því, er oft hefir heyrzt í aðalmálgagni stj. nú í seinni tið, að vegna hinna miklu framkvæmda síðustu ára sé ekki rétt að ætlast til, að nú sé hægt að halda í horfið í því efni. En ég vil þá segja, að einmitt þessar geysiframkvæmdir síðustu ár séu ein af meginorsökum kreppunnar hér í landi, ein meginkvísl kreppunnar sé einmitt komin frá stj. sjálfri. Ég skal að sjálfsögðu viðurkenna það, að hér sem alstaðar annarsstaðar úti um heim er kreppan runnin af almennum ástæðum að nokkru leyti, en meginástæðan er hinar miklu framkvæmdir stj. Hin sama reynsla er að fast í öðrum löndum; þar, sem framkvæmdastjórnir hafa setið að völdum, kemur kreppan harðast niður, en þar, sem gætin fjármálastjórn hefir átt sér stað, er allt rólegt að mestu. (Fjmrh.: Hvar er það, sem allt er nú rólegt?). Það má nefna lönd eins og Frakkland. Þeir skylmast þar að vísu á stjórnmálasviðinu, fella stjórnir og því líkt, en slagurinn stendur þar ekki um kreppuna eða fjármál. þegar litið er á þá miklu keppni í framkvæmdalífi undanfarinna ára, og að einmitt stjórnin átti drjúgan þátt í að auka hana með því að keppa við atvinnuvegina, er það ljóst, að hún hefir einmitt farið öfugt að, því að í góðærunum hyggin stj. einmitt að beita sínum áhrifum með því blátt áfram að draga fé út úr veltunni, lækka öldutoppinn, til þess að geta á sínum tíma hækkað dalina. En hvernig hefir stj. hagað sér í þessu efni í undanförnum góðærum? Hún hefir árlega borgað úr ríkissjóðnum margar millj. kr. fram yfir áætlun, — hún hefir sem sé farið þveröfugt að við það, sem átt hefði að vera.

Ég get að vísu tekið undir það með hv. þm. Borgf., að það þýði ekki að sakast um þetta nú, því að það er komið sem komið er, en ég sá ástæðu til þess að benda á þetta, úr því að hæstv. fjmrh. virtist boða það sem sjálfsagða reglu á krepputímum, að auka jafnan skattaálögur, en að draga úr framkvæmdum.