08.04.1932
Efri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (3196)

61. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. hefir legið fyrir hv. Nd., flutt þar af hv. landbn., og hlaut samþ. þeirrar d. breytingalaust. Fyrirsögn þess segir til um efnið. Samkv. frv. á hér eftir að svæfa þá hesta og nautgripi, sem þessi uppskurður, gelding, er gerður á. Landbn. lítur svo á, að frv. þetta beri að samþ. Hún kvaddi á fund sinn dýralækni og bar frv. undir hann, og það er í samráði við hann, að n. flytur brtt. sínar á þskj. 309. Þessar brtt. ganga báðar í þá átt, að tryggja möguleika á því, að lögunum verði fylgt, ef þau komast í gildi.

Fyrri brtt. fjallar um, að þeir, sem eiga að taka að sér svæfingu á þessum gripum, geti átt kost á nægilegum undirbúningi til þess að þeim farist slíkt verk vel úr hendi. Gr. leggur þá kvöð á dýralækna, að þeir kenni mönnum þetta.

Síðari brtt. er á þá leið, að lögin komi síðar til framkvæmda en til er ætlazt í frv. Er hún af sömu rótum runnin og hin, miðar að því, að hægt verði að framfylgja lögunum, þegar þau ganga í gildi. N. þótti sá tími, sem frv. tiltekur, helzt til stuttur og áleit, að ekki væri tryggt, að þá yrðu til menn í öllum plássum, sem kynnu þessar aðgerðir.

Hv. þm. Snæf. á brtt. við frv. á þskj. 332. Ég held, að mér sé óhætt að lýsa því yfir fyrir n. hönd, að hún fallist alveg á þá till. — Ég minnist þess, að þegar þetta mál var hér til 1. umr. vakti einhver dm., ég hygg að það hafi verið hv. 6. landsk., máls á því, hvort ekki mundi hægt að færa frv. lengra út, svo að það næði til fleiri húsdýra, t. d. sauðfjárins. Landbn. athugaði þetta, en komst að þeirri niðurstöðu, að slíkt væri varla framkvæmanlegt.