08.04.1932
Efri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (3197)

61. mál, gelding hesta og nauta

Halldór Steinsson:

Ég verð að láta í ljós það álit mitt, að þetta sé mjög ómerkilegt mál. Það er að vísu ekki ómerkilegt að sýna skepnunum mannúð, en hafi það verið aðaltilgangur þessa frv., nær það allt of skammt. Það tekur út úr tvær dýrategundir, hesta og nautgripi, en vitanlegt er, að það er fjöldi annara dýra, sem þarf að gera sömu aðgerðir a. Það er alveg hárrétt, sem hv. 6. landsk. sagði við 1. umr., að þyki ástæða til þess að gera nefndar ráðstafanir með þessi dýr, því þá ekki eins önnur, t. d. lömbin. Að mínu áliti er ekki síður ástæða til þess að draga úr þjáningum ungviðisins en þeirra fullorðnu. Annars verð ég að segja, að ég tel þessar aðgerðir ekki svo sársaukafullar á fullorðinni og hraustri skepnu, að taki því að gera umfangsmiklar ráðstafanir þess vegna. Enda mætti alveg eins draga úr sársaukanum með staðdeyfingu, og væri það miklu umfangs- og hættuminna.

Ég held því, að leið sú, sem farin er í frv., sé ekki sem réttust, og ég held meira að segja, að hv. n. hefi verið á svipaðri skoðun; það sýnir m. a. brtt. hennar, sem kveður svo á, að lögin skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en 1935, svo að ekki virðist liggja mikið á þessum umbótum.

Ég legg sem sé ekkert upp úr þeirri ástæðu hv. n., að svo langan undirbúning þurfi til framkvæmda. Það þarf ekki margra ára nám til þess að kunna að fara með klóróform. En þetta sýnir, að hv. n. er á sama máli og ég um, að frv. sé nauða ómerkilegt.

Ég sé ekkert athugavert við brtt. n., þær eru heldur til bóta, nema það sem sagt er, að orðið „héraðslæknir“ skuli falla burt. Ég held, að héraðslæknir kunni alveg eins vel að kenna meðferð klóróforms eins og dýralæknar. Þar að auki er víðast hvar miklu hægra að ná í héraðslækni en að þurfa að sækja einhver námskeið hjá dýralækni. Þetta gerir framkvæmd laganna bara umstangsmeiri.

Þá kem ég að brtt. mínum. Þó að ég telji málið ekki mikils virði, held ég, að yrði það samþ. óbreytt, gæti það verið talsvert varhugavert. Þar stendur, að menn, sem eiga að taka að sér þennan starfa, hafi hindrunarlaust aðgang að svæfingarefni hvenær sem er. Þetta nær ekki nokkurri átt, að gefa ólærðum mönnum slíkan aðgang að þessum sterku eiturlyfjum, sem geta verið stórhættuleg í höndum manna, sem ekki kunna með þau að fara. Þess vegna flyt ég brtt. um, að dómsmrh. skuli setja reglugerð um sölu og afhendingu svæfingarlyfja til geldingamannanna.