08.04.1932
Efri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (3198)

61. mál, gelding hesta og nauta

Guðrún Lárusdóttir:

Ég lét þess getið hér við 1. umr., að mér hætti vænt um þetta frv. Mér þykir vænt um allar þær tilraunir, sem gerðar eru til þess að rétta hluta smælingjanna mállausu, sem alveg eru háðir meðferð mannanna. Ég lét þá í ljós von um, að hv. landbn. reyndi að endurbæta þetta frv., svo að fleiri skepnur nytu góðs af því en upphaflega var til ætlazt. Hv. n. hefir samt, af mér óskiljanlegum ástæðum, ekki séð sér fært að gera þetta. En n. hefir borið fram aðrar brtt., t. d. þá, að dýralæknar skuli kenna mönnum að fara með svæfingarlyf. Það gæti einmitt verið spor í rétta átt og stuðlað að því, að fleiri dýr yrðu aðnjótandi þessarar náðar en frv. minnist á. Ég tel víst, að mannúð aukist svo í náinni framtíð og að menn fari þá að taka það upp hjá sjálfum sér að nota svæfingar við geldingu dyra. — Mér lízt aftur mjög illa á brtt. við 4. gr. frv. Nú þegar eru til margir menn, sem kunna þessar aðferðir, og sumstaðar er farið að nota þær nú, svo að ég held, að þessi langi undirbúningstími sé hreinasti óþarfi. Ég sé ekki betur en að dýrin séu nógu lengi búin að bíða eftir þessari bót frá mannsins hendi og eigi fulla heimtingu á þeirri vægð eða hlífð, sem frv. tryggir þeim. Við stöndum öll í ógoldinni þakkarskuld við dýrin okkar, og færi illa á því, ef ónotað yrði tækifærið, sem hér liggur fyrir, til þess að grynna og á þeirri skuld. Ég tek það fram, að ég get ekki greitt atkv. með þessari brtt. og vildi óska, að sem flestir hv. dm. greiddu atkv. á móti henni. Það er engin ástæða til þess að draga þetta dýraverndunarmál í tvö ár enn.