08.04.1932
Efri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (3200)

61. mál, gelding hesta og nauta

Halldór Steinsson:

ég vil aðeins leiðrétta eitt atriði í ræðu hv. frsm. Ég sagði ekki að ég teldi þessar aðgerðir sársaukaminni á fullorðnum dýrum en ungum. Ég býst við, að sársaukinn sé jafn í báðum tilfellum. En ég sagði, að maður gæti betur lagt sársauka á fullorðna, hrausta skepnu en á ungviði. A. m. k. líta læknar svo á, að þeir geti fremur lagt sársauka á hraustan, fullorðinn mann en á barn, þeir vilja frekar hlífa þeim við miklum sársauka. Og ég býst við, að það sama eigi við um menn og skepnur í þessu tilfelli. Fullorðnar skepnur munu harka betur af sér en ungviði.

Hitt vil ég ekki við kannast, að staðdeyfing sé umfangsmeiri eða vandasamari en svæfing. Hún er þvert á móti miklu hentugri, því hana geta allir skynbærir menn lært á stuttum tíma og notað hana án þess að það geti orðið að skaða. Þess vegna er staðdeyfing betri og umfangsminni en svæfing, ef á annað borð um deyfingu á að vera að ræða á þessum skepnum.