17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki heldur gefa tilefni til langrar umr.

Hæstv. fjmrh. vildi halda fram, að allar stjórnir hefðu brotið lögin um bifreiðaskatt með því að rugla honum saman við viðhaldsféð. Mér hefir verið sagt, að í tíð fyrrv. stj. hafi bifreiðaskattinum verið varið til sterkra vega, eins og lögin mæla fyrir, á Hellisheiði og víðar. Hinsvegar held ég, að hæstv. ráðh. hljóti að vera mér sammála um það, að stj. eigi alltaf að fylgja lögunum. Ef henni finnst þau ranglát, þá á hún að fá þeim breytt. Það er engin afsökun, þó að hægt væri að benda á, að aðrir hafi brotið lögin áður. Það dugir ekki að taka allt það versta hjá öðrum sér til fyrirmyndar.

Hæstv. ráðh. talaði um tugi km. úti um land, sem hægt væri að gera bílfæra fyrir mjög lítið fé. Ég er nú ekki eins viss um þetta, eða hvort sjálfsagt væri að gera það, ef það er hægt. Þó hægt sé að leggja lélega vegi, er alls ekki þar með sagt, að sjálfsagt sé að gera það. Það er svo með hvern hlut, að menn verða að gera sér grein fyrir, hvort menn hafa ráð á því að eiga þá. Það getur verið álitamál, hvort við höfum ráð á að þenja illa gerða vegi út um allt, sem ef til vill er svo ekki hægt að nota nema stuttan tíma úr árinu.

Hæstv. ráðh. taldi skýringar mínar á kreppunni í þynnsta lagi. Það væri þó víst ekki hægt að segja um hans skýringar! ! Hann var að tala um, að það væru vandræði í Danmörku ekki síður en hér. Það er léleg röksemd fyrir málstað hæstv. ráðh. Þar stendur einmitt líkt á og hér að því leyti, að með völdin hefir farið undanfarandi sá flokkur, sem yfileitt er talinn heldur óprúttinn. Hann hefir steypt þjóðinni í sama fenið og flokkur hæstv. ráðh. hefir steypt íslenzku þjóðinni. Þó býzt ég við, að ástandið sé skárra þar, vegna þess að kreppan kom þar fyrr. Stj. hér hefir gert kreppuna enn verri með því að fresta henni um nálega ár. Vegna lántöku hennar komu erfiðleikar bankanna ekki eins fljótt í ljós, og hélt hún þannig öllu í sama horfinu árinu lengur.

Annars virtust skýringar hæstv. ráðh. á kreppunni allar stefna að því að sýna mönnum fram á, að hún væri þjóðinni alveg osjálfratt fyrirbrigði, sem ekkert væri hægt að ráða við. Þessar skýringar leiða út í það, að engu sé hægt að bjarga, að það sé alveg sama, hvernig farið er að. Sennilega á þetta þá líka við um einstaklingana. Eru efnaðir menn jafnberskjaldaðir fyrir kreppunni eins og þeir fátækari? Er t. d. engin hjálp að því lengur fyrir bóndann að eiga hey í harðindum? Ef yfirleitt einstaklingar og þjóðir geta ekkert gert til þess að koma í veg fyrir erfiðleika, þá eru vitanlega allir saklausir.

Hæstv. ráðh. bað mig að benda á ríki, sem komizt hefði hjá örðugleikum kreppunnar. Nefndi ég þá Frakkland. Hæstv. ráðh. kannaðist við, að Frakkar væru efnaðir, en sagði, að þó hefði orðið tekjuhalli hjá þeim mi. Þetta gæti e. t. v. villt þá, sem ekkert vita um þessi efni. Það er nefnilega venja í Frakklandi, að það er alltaf tekjuhalli á fjárlögum. Að því leyti mætti segja, að óreiða væri á fjármalastj. þar, og hefir oft verið á það bent. En af hverju stafar þetta? Af því, að franska þjóðin vakir yfir þingmönnum sínum að því er skattaálögur snertir. Þm. þar þora blátt áfram ekki að vera með því að hækka skatta. Frakkar eru sparsamir og borgararnir vilja ekki eyða öllu, sem þeir afla. Þess vegna eru þeir mjög ófúsir að greiða skatta. Þetta kemur aftur fram í því, að þjóðin er efnuð, og er því hægt að ná inn sköttum, þó að harðni í ári. Frakkar standast þess vegna vel kreppuna og þar ber mjög lítið á afleiðingum hennar. Aftur á móti eru Englendingar eyðslusöm þjóð, og þar hefir setið að völdum ógætin stjórn í fjármálum. Afleiðingarnar af því hafa líka sýnt sig, pundið hefir fallið og við mikla erfiðleika er að stríða.

Hæstv. fjmrh. hélt fram, að öldugangur í atvinnulífi og fjármálum þjóðanna væri óhjakvæmilegur, og öldugangurinn í framkvæmdum ríkjanna hlyti að fylgjast að við hann. Þarna greinir okkur á. Ég segi, að öldugangurinn eigi að jafnast fyrir atbeina ríkisvaldsins, aðgerðir þess eigi að vera olía á hinn æsta sjó. Ég get þakkað hæstv. ráðh. síðustu orðin um þetta efni, því þar tók hann eiginlega aftur það, sem hann sagði áður, viðurkenndi, að ríkisvaldið ætti að draga úr ölduganginum. En það hefir stj. hér ekki gert. Hún hefir tekið þátt í ölduganginum og æst hann. Hún hefir tekið fé umfram heimildir og kastað í öldutopp framkvæmdalífsins.

Mér þóttu hæpnar röksemdir hæstv. ráðh., er hann vildi gefa í skyn, að ef ástandið hjá Reykjavíkurbæ væri eitthvað svipað og hjá ríkinu nú, þá væru orð mín um kreppuna og orsakir hennar tóm vitleysa. Ég veit ekki, hvaða ógnar ábyrgð ég ber á stjórn Reykjavíkurbæjar, einn vesall kjósandi hér. Ég veit ekki, hvort það eru svo miklir sauðir í herbúðum hæstv. ráðh., að allir líti nákvæmlega sömu augum á hlutina. Þar er e. t. v. aðeins einn hirðir og ein hjörð. Ég skal játa, að mér hefir fundizt bæjarstjórnin óþarflega hörð í skattanlögum. Ég persónulega álít, að betra hefði verið að fara hægar og gætilegar í stj. bæjarmálanna. Þó er aðstaða bæjarins og landsins ekki sambærileg. Bærinn má heita skuldlaus. Féð, sem hann skuldar, stendur í arðberandi fyrirtækjum, sem sjálf standa straum af því. Það stendur í rafveitunni, vatnsveitunni o. s. frv. Ekki hefði verið ódýrara fyrir bæjarbúa að afla sér ljósa og vatns á annan hátt. þetta er hinn róttæki munur á hag bæjarins og landsins.