29.02.1932
Efri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Þeir tímar, sem nú standa yfir, eru að vísu þannig, að þeir hvetja ekki til nýrra framkvæmda, sem hafa kostnað í för með sér. Að því leyti mætti líta svo á, að till. sú, er hér liggur fyrir um skipun mþn., sem ríkissjóður beri kostnað af, sé í ósamræmi við þessa tíma. En ég geri ráð fyrir, að nefndarskipun þessi þurfi ekki að kosta nema lítið fé og málið hinsvegar þannig vaxið, að Alþingi ber skylda til að gefa því nokkurn gaum. Í annan stað eru einmitt þeir tímar nú, sem hvetja sérstaklega til þess að sinna slíkum málum, og virðist mér því, að ekki megi horfa í, þó að kosti eitthvað.

Málefnum okkar unga iðnaðar hefir fram að þessu verið of lítill gaumur gefinn á Alþingi. Og á sumum sviðum hefir iðnaðurinn orðið að þola ranglæti af íhlutun hins opinbera, t. d. í skattalöggjöf, eins og bent er á í bréfi Iðnaðarmannafél. í Reykjavík, sem fylgir grg. till. þessarar. Skattalöggjöf þessari er þannig háttað, að segja má, að hún miði á stundum meira að því að vernda erlendan iðnað en að ívilna okkar innlenda iðnaði og gera hann samkeppnisfæran. Sem dæmi má nefna, að ef fluttir eru inn alsmíðaðir bátar, þá eru þeir tolllausir, en af efni því, sem flutt er inn og Íslendingar sjálfir smíða báta úr, verður að greiða toll. Á meðan svona stendur geta íslenzkir bátasmiðir ekki keppt við þá erlendu, en af því leiðir, að langtum færri bátar eru smíðaðir í landinu en annars mundi vera. Sama er að segja um bókband. Á bundnum bókum, sem inn eru fluttar, er enginn tollur, en á pappa og pappír og öðru því efni, sem íslenzkir bókbindarar nota við iðn sína, hvílir tollur.

Það leikur ekki á tveim tungum, að okkur er mikil þörf á, að unnið sé meira úr íslenzkum framleiðsluvörum en hingað til. Að þessu leyti er hér um ónumið land að ræða, enda hefir til þessa verið allt of lítið gert af hálfu hins opinbera að vinna sem bezt úr þeim vörum, sem framleiddar eru í landinu. Þarf ekki að efa, að allt slíkt gæti fært okkur drjúgan arð, jafnhliða og þau störf færðust yfir á fjölbreyttara svið.

Það er því mitt álit, að þar sem sú alda gengur nú yfir öll lönd að hlynna að innlendum iðnaði og búa sem bezt að sínu, þá muni þær öldur einnig ganga yfir okkar land, enda er svo að sjá, sem þessi hreyfing sé allsterk orðin, og á ég þar við íslenzku vikuna, er kaupmenn og iðnaðarmenn hafa bundizt samtökum um að koma á um páskaleytið. Virðist mér því margt benda til, að nú sé sérstaklega hentugur tími að hrinda þessum málum áleiðis.

Um þau verkefni, sem talin eru upp í till., ætla ég ekki að ræða að þessu sinni, enda geri ég ekki að kappsmáli ýmis þau atriði, sem þar eru nefnd, né um skipun nefndarinnar. Ég taldi sjálfsagt, að landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn eigi sína fulltrúa í n., því að báðir þessir aðilar leggja svo mikið til af framleiðsluvörum, sem þarf að gera arðbærar.

Annars vona ég, að betri tímar séu framundan, en þó er sjálfsagt að hlynna að okkar innlenda iðnaði og gera hann fjölbreyttari. Að vísu getur svo farið, að þessir krepputímar vari lengur en þeir bjartsýnustu gera ráð fyrir nú, og því er enn meiri þörf fyrir sérstakar ráðstafanir í þessum efnum. Þess er líka að vænta, að þær einar ráðstafanir verði gerðar, sem notast megi síðar, þó að kreppunni ljúki.

Ein af kröfum iðnaðarmanna hefir verið sú, að Alþingi kjósi iðnaðarnefnd, er sé hliðstæð þeim tveim nefndum, sem þingið kýs vegna landbúnaðar- og sjávarútvegsmála, og er sú krafa sett fram að nýju í bréfi því, er ég minntist áður á. Í hv. Nd. er nú komið fram frv. í þessa átt, og tel ég sjálfsagt að það nái fram að ganga. Þess vegna teldi ég rétt, að þessi hv. d. kysi nú þriggja manna iðnaðarmálanefnd, sem fengi þessa till. til athugunar og önnur þau mál, sem iðnað snerta.

Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni, en geri að till. minni, að umr. verði frestað og málinu vísað til þessarar væntanlegu n., sem ég vænti, að hv. d. kjósi nú þegar, þó að þingsköp mæli ekki svo fyrir.