29.02.1932
Efri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (3221)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Halldór Steinsson:

Eins og kunnugt er, hefir á síðari árum verið hrúgað upp fjölda milliþinganefnda og öðrum n. með ærnum kostnaði, en árangur af störfum þeirra ærið smávaxinn samanborið við kostnaðinn. Mér finnst því að bera í bakkafullan lækinn að bæta nú enn við nýrri n. á þeim krepputímum, sem nú eru, enda mun ég greiða atkv. á móti skipun slíkrar n. og till. þessi fer fram á.

Þó að iðnaðar- og iðjumál séu að vísu vandasöm, þá álít ég, að ekki þurfi að skipa sérstaka mþn. til að ráða fram úr þessum málum, heldur geti ríkisstj. með aðstoð fagfróðra manna ráðið fram úr þessum málum.

Þó að nauðsynlegt sé, að eitthvað meira sé gert fyrir iðnað okkar en hingað til, þá geri ég ráð fyrir, eins og n. á að vera skipuð samkv. till., að iðnaðarmenn hafi þar litlu að ráða og lítið gagn af. Eftir till. ráða iðnaðarmenn aðeins einum manni í n., hinir eiga að vera útnefndir af Alþýðusambandi Íslands, Félagi íslenzkra botnvörpunga, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, en fimmta manninn skipar hæstv. stj. Er því engin trygging fyrir því, að beztu menn úr hópi iðnaðarmanna veljist í nefndina.

Hæstv. ráðh. gat þess, að sér væri ekkert kappsmál, hvernig n. væri skipuð, og því mætti e. t. v. breyta í meðferð málsins hér í deildinni. En mér finnst, eins og ég hefi vikið að, að við getum komizt af án þessarar n.

Þessi mál hefir Iðnaðarmannafélagið tekið til meðferðar og gert um þau ákveðnar till., og iðnráðið hefir óskað eftir, að þessi þáltill. verði ekki samþ. Ég sat nýlega á fundi iðnráðsins, þar sem forráðamenn iðnaðarins andmæltu till. og töldu ekkert með henni unnið. Og þegar þeir sjálfir beiðast undan þeim ráðstöfunum, sem till. fer fram á, ætti þingið að taka tillit til þess. Iðnaðarmenn hafa bent á, hvaða endurbætur þeir telji nauðsynlegastar iðnaðarins vegna, en þær eru fyrst og fremst, að Alþingi setji sérstök lög, er lækki ýmsa ósanngjarna tolla, er nú hvíla á iðnaðarvörum og kreppa að iðnaðinum.

Ég get ekki mælt með því, að till. nái samþykki, en vænti þess, að hæstv. stj. taki þessi mál til athugunar fyrir næsta þing; og sé um einhver atriði að ræða, sem stj. telur sig ekki hafa næga þekkingu á, ætti að vera innanhandar fyrir hana að fá fagmann sér til aðstoðar.

Þó að hæstv. forsrh. segi, að þessi mþn. þurfi ekki að kosta mikið fé, þá legg ég ekki mikið upp úr því. Reynsla undanfarandi ára hefir sýnt annað.