11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3234)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Það er tómur útúrsnúningur hjá hv. l. þm. Reykv., að ég hafi talið kaupgjaldsatriðið einu ástæðuna fyrir því, að Alþýðusambandið ætti að velja mann í n. Ég var að skýra frá þeirri staðreynd, að iðnaðarmenn skiptust í tvo flokka og að launaflokkurinn eða sveinarnir, sein eru fjölmennari, fengju sinn fulltrúa frá Alþýðusambandinu. Aftur á móti fá meistararnir vafalaust sinn fulltrúa úr iðnaðarráðinu. Ég geri ekki ráð fyrir, að launamálið verði það atriðið, sem kemur fyrir n. Það eru mörg fleiri atriði milli meistara og sveina, er skipta máli. Ég get t. d. bent hv. 1. þm. Reykv. á það, að í flestum menningarlöndum eru settar mjög strangar reglur, er snerta aðstöðu meistara gagnvart sveinunum, og um nemendatöku. Hér á landi eru að vísu til lög um þetta efni, en þau eru mjög ófullkomin. Það má sérstaklega benda á það atriði, hve margir sveinar eigi að vera í hverri iðngrein. Hér er höfð sú aðferð, að meistararnir taka alltaf nýja og nýja menn, til þess að fá vinnu þeirra fyrir lítið, og unga þannig út fjölda manna með kunnáttu í sinni grein, og það miklu fleiri heldur en heilbrigt er fyrir hverja iðngrein um sig, og afleiðingin af því verður svo, að þeir spilla hver fyrir öðrum og hafa svo kannske engin not af kunnáttu sinni. Þetta er eins og stendur eitt af stærstu meinum þessarar stéttar. Um brtt. hv. þm. ætla ég ekki að deila við hann að þessu sinni, og sízt af því, að hún liggur hér hvorki fyrir til umr. eða atkvgr.