11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (3235)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Halldór Steinsson:

Ég hefi líklega sérstöðu í þessu máli, því að ég er algerlega mótfallinn skipun þessarar mþn., a. m. k. ef hún ú að vera á launum. Ég tók það fram í fyrsta skipti, er þessi þáltill. var til umr., að ég sæi enga ástæðu til þess að skipa þessa n., og ég gat um það, að iðnráðið hefði lagt á móti því, að hún yrði skipuð. En aðalástæðan til þess, að ég er nefndarskipuninni mótfallinn, er sá mikli kostnaður, sem slíkar n. hafa yfirleitt haft í för með sér hér hjá okkur. Það vita allir hv. þdm., að þessar n. hafa verið eins og mara á þjóðinni, því kostnaðurinn við þær hefir nú skipt mörgum hundruðum þúsunda. Og hver er svo árangurinn af öllu þessu mikla starfi? Það er óhætt að segja, að hann er hverfandi lítill. Þingið hefir harla lítið byggt á áliti þessara n. oft og tíðum, og álit sumra þessara n. hafa stundum verið svo nauðaómerkileg, að það hefir þurft að senda þau heim til föðurhúsanna aftur, ef það hefir átt að vera hugsanlegt að byggja nokkuð á þeim. Þegar nú reynslan er sú um þessar nefndir, sem raun er á, að kostnaðurinn vill verða hár, en árangurinn lítill, þá furðar mig á því, hvernig hv. þm. hafa alltaf gleypt við till. um skipun nýrra og nýrra mþn. Ég mun því greiða atkv. á móti þessari þáltill., nema þá ef samþ. verður brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. um það, að n. vinni kauplaust, en ég á ekki von á því, að það verði gert.

Um skipun n. skal ég taka það fram, að ég tel það óeðlilegt, að hún sé skipuð eftir till. einstakra félaga og stofnana. Ég get hinsvegar ekki fallizt á þá skoðun hv. 1. þm. Reykv., að það eigi frekar að útiloka Alþýðusamband Íslands frá því að velja fulltrúa heldur en Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda eða Samband íslenzkra samvinnufélaga. Mér finnst, ef þessi tvö félög eiga að fá að velja fulltrúa í n., þá sé ekki síður ástæða til þess, að Alþýðusamband Íslands fái að hafa sinn fulltrúa, því áreiðanlega munu ekki vera síður hæfileikar til hjá mönnum innan þess flokks eða stéttar heldur en hjá öðrum mönnum. — Ég sé þá ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál við þessa umr.