11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3236)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Ég hefi ekki ástæðu til að ræða meira um málið sjálft í þetta skipti, en út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði um störf mþn., get ég nú að nokkru leyti tekið undir það, sem hann sagði um árangur af störfum þessara n. Þó vil ég geta þess, að sumar n. hafa skilað góðum álitum og vel undirbúnum málum. Ég vil t. d. benda á eina mþn., sem undirbjó slysatryggingarlögin árið 1925, en ég get verið hv. þm. sammála um það, að störf þessara n. hafa yfirleitt ekki svarað til kostnaðarins, og það álít ég, að stafi sumpart af því, hvernig n. eru skipaðar. Þær eru sérstaklega skipaðar mönnum, sem eiga að gefa till. n. gildi, en þess er oft minna gætt, að þessir menn hafi næga þekkingu á verkefninu. Það, sem mest ríður á að lagfæra við þessar n., er kannske ekki það helzta að minnka kostnaðinn við n., heldur það, að sjá um, að n. velji sér hæfa starfskrafta. Að allar slíkar n. útvegi sér starfsmenn, er vinni undir handleiðslu n., menn, sem eru sérfróðir á því sviði, er n. starfa. Því það er alls ekki víst, að nm. sjálfir séu nógu færir til þess að undirbúa málin, þó að þeir séu hæfari en aðrir til þess að koma þeim á framfæri og gegnum þingið.