11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3237)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er aðeins stutt aths. út af orðum hv. þm. Snæf., þar sem hann hélt fram, að þeir aðilar, sem gert er ráð fyrir, að tilnefni menn í nefndina, hefðu ekki átt að koma þar nærri. Þetta get ég ekki fallizt á. Ef það á að vera verkefni n. að rannsaka og gera till. um, hvað hægt er að vinna úr íslenzkri framleiðslu, þá finnst mér eðlilegt, að S. Í. S. og Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda komi þar nærri, því þessir tveir aðilar hafa óhjákvæmilega áður orðið að hugsa um og rannsaka þetta efni, og það er því æskilegt, að þeirra þekking komi beint til nota fyrir n. í gegnum þá menn, sem þeir leggja til í hana. S. Í. S. sem sá aðili, sem kemur mestum hluta af vörum landbúnaðarins á markað, hlýtur að hafa þekkingu á þessu sviði að því er snertir hráefnaframleiðslu sveitanna, og eins Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda á sínu sviði. Þess vegna er vafalaust rétt, að þessir aðilar eigi fulltrúa í n., ef hún á að rannsaka, hvað vinna má úr íslenzkum hráefnum. Hafi það hinsvegar vakað fyrir hv. þm., að fulltrúar þessara aðila ættu lítið erindi í n. til þess að endurskoða iðnaðarlöggjöfina, þá get ég fallizt á það, en eftir till. n. er alls ekki gert ráð fyrir, að það eigi að vera verkefni þessarar n.

Um það, sem hv. 2. landsk. var að tala um, að Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda væri ekki lengur til sem slíkt, er mér alls ekki kunnugt. En hæstv. stj. hefir gert ráð fyrir, að félagið væri til og ætlað því að eiga mann í n., og ég tel það sem sagt vel farið.