11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (3239)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Magnús Torfason:

Ég vil aðeins geta þess út af ræðu hv. 2. landsk., að eins og þáltill. er orðuð, er það ekki útilokað, að komið geti til umr. í n. þau mál, sem iðnaðarmenn snerta. Ég vildi aðeins benda á það til leiðbeiningar starfi n., að það var alls ekki hugsunin að útiloka þetta.

Annars virtist mér vera að brjótast út hjá hv. 2. landsk. hinn nýfæddi sparnaðarandi. Og ég vil herða á því, að sparnaðarn. láti það verða sitt fyrsta verk að koma með till. um, hvernig launa eigi milliþingarefndir, og þá vitanlega um leið, hvernig sparnaðarn. sjálf á að vera launuð. (JBald: Hv. þm. veit e. t. v. ekki að sparnaðarnefndin er ólaunuð). Á þingi veit ég, að hún er ólaunuð, og það færi einmitt vel á því, að hún kæmi með till. um þetta efni hér á þingi meðan hún er sjálf ólaunuð, og ætti hún með því móti að taka tillit til till. hv. þm. Snæf. í þessu máli, þar sem hann kemur nú fram sem sérstakur sparnaðarmaður. Annars er ég honum ekki sammála um það, að ekkert teljandi gagn hafi orðið að þeim nefndum, sem hann taldi upp. Ég mæli ekki starfsgagn hverrar nefndar eftir því, hvað mörg frv. ná fram að ganga þegar í stað að hennar ráði: Það er t. d. um landbúnaðarnefndina að segja, að hún hefir áreiðanlega unnið mikið starf, sem vinna þurfti. Hitt er annað mál, að eins og gengur um málefni, sem alþjóð varða, koma menn sér ekki saman um það á fyrsta né öðru ári, hvernig vinna eigi úr slíku verki. Fyrst komast minni till. í framkvæmd og sumt af því, sem landbúnaðarn. mælti með, er þegar komið í lög. En stærstu málin, sem erfiðari eru viðureignar, þurfa nokkur ár þangað til búið er að skoða þau alhliða; nefndarstarfið verður þó alltaf grundvöllurinn, sem meðferð þeirra er byggð á.

Mér er ekki kunnugt um nema eina mþn., sem ekkert gagnlegt liggur eftir, og það er sparnaðarnefndin gamla. En ég veit, að nýja sparnaðarn. er svo vel skipuð, að á starfi hennar og gömlu n. verður eins mikill munur eins og á degi og nótt.