17.02.1932
Neðri deild: 3. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég ætla að efna það, að lengja umr. ekki mikið. Ég get ekki fallizt á, að umræddur samanburður á Rvík og ríkinu sé tilefnislaus. Þegar heimtað er af ríkisvaldinu, að það lækki skatta og auki framkvæmdir í kreppunni, þá finnst mér ekki nema réttmætt að spyrja Rvík, hvað hún sé tilbúin að gera í þessu efni. Það er að vísu rétt, að tekjur bæjarins eru áætlanlegri en tekjur ríkisins og fara því síður mikið fram úr áætlun. En ef bæjarstj. getur ekki látið safnast sjóði hjá bænum, ætti hún að geta lagt lítið á bæjarbúa af gjöldum í góðærinu, svo að fé safnist saman hjá einstaklingunum, samkv. kenningum hv. 4. þm. Reykv., og þeir hafi meiri gjaldgetu þegar erfiðlega gengur. En ég hygg, að yfirleitt sé hvergi mikið fé fyrirliggjandi nú til þess að mæa með kreppunni. Við getum náttúrlega staðið hér og skellt skuldinni hver á annan, en slíkt verður alltaf meira eða minna rangt, og enda til þess gert að tortryggja hver annan. Alheimskreppan á fyrst og fremst sökina á því ástandi, sem hér ríkir nú. Það er staðreynd, sem ekki verður komizt hjá að viðurkenna. Það kann að vísu að vera hægt að vefja einhverjar „frómar sálir“ í vafa í þessu efni, en ég hygg, að flestum muni nú ljóst orðið, að eitthvað sameiginlegt stendur á bak við þessi almennu vandræði allra, hvar sem er í veröldinni. Hvort sem um er að ræða kaupstaði, sem stjórnað er af sjálfstæðismönnum eða jafnaðarmönnum, eða ríkið undir stjórn framsóknarmanna, ber allt að sama brunni, og hlýtur því einhver sameiginleg orsök að vera fyrir þessu ástandi.

Þó að ég segði, að framkvæmd bifreiðaskattsl. hefði verið eins frá upphafi, að því leyti að skattinum hefði ekki verið safnað í neinn sérstakan sjóð, þá er hér alls ekki um neitt lagabrot að ræða, eins og hv. 4. þm. Reykv. vildi vera láta, því að skatturinn hefir alltaf gengið upp á hverju ári, vegna hinna miklu þarfa á viðhaldi og viðgerðum veganna. Af þeirri einföldu ástæðu hefir aldrei til sjóðmyndunar komið.