13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3245)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Halldór Steinsson:

Ég ætla að gefnu tilefni að leiðrétta í fyrri ræðu minni, þar sem ég talaði um borgun til hinna einstóku manna, er sæti áttu í landbúnaðar milliþn.. að ég átti við núv. 1. þm. Eyf., Bernharð Stefánsson, en ekki hv. 2. þm. Eyf., Einar Árnason, sem var 1. þm. Eyf. á meðan n. starfaði. Ennfremur hafði ég mismælt mig, er ég sagði, að Þórarinn Jónsson á Hjaltabakka hefði tekið fyrir sitt starf í n. 11 þús. kr., átti að vera á 11. þús., eða 10700 krónur.

Hæstv. dómsmrh. þarf ég ekki miklu að svara. Hann hóf ræðu sína á sömu aðfinningunum til fyrirrennara sinna, sem hann er orðinn svo kunnur fyrir bæði utan þings og innan. Það eru alltaf þessi sömu rök hjá honum: að af því að aðrir á undan honum í ráðherrastól hafa framið eitthvað, sem er aðfinnsluvert, þá er honum leyfilegt að gera slíkt hið sama. Í þetta sinn fann hann sér og sinni stj. til afbötunar, að fyrrv. stjórnir hefðu á ýmsum tímum skipað nefndir, og taldi upp nokkrar slíkar n., sem kostað hefðu mikið fé, en forðaðist að minnast á, hvaða ástæður hefðu legið til þess, að nefndir þær voru skipaðar. M. ö. o., af því að aðrir á undan honum hafa skipað dýrar nefndir, þá mátti hann og stj. hans setja á stofn slíkt nefndafargan, að dæmi er ekki til hjá nokkurri annari stjórn. En það er léleg vörn, ef bornar eru sakir á einhvern, að bera því við, að aðrir hafi gerzt sekir um hið sama. Ef einhver ber á hæstv. dómsmrh. t. d. þjófnað, þá gerir það ekkert til, eftir þessari kenningu hans, ef aðrir hafa stolið meira. En þetta er eina vörnin, sem hann hefir fram að færa í hvaða máli sem er, þegar um afglöp hans er að ræða.

Hæstv. dómsmrh. fór að blanda læknastéttinni inn í þetta mál, en líklega hefir hann gert það út frá því, sem ég sagði um starf ríkisgjaldanefndarinnar. Hann sagði, að læknar hefðu kúgað fram launahækkun á þingi 1919. Mér er ekki kunnugt, að svo hafi verið, en hitt mun sanni nær, að þá komu fram launakröfur frá flestum stéttum, sem laun taka úr ríkissjóði. En hitt er með öllu ósatt, að læknastéttin hafi beitt nokkurri kúgun þá né endranær. Að vísu skal það játað, að laun lækna voru hækkuð í þetta sinn, en alls ekki tiltölulega meira en laun annara embættismanna.

Hæstv. dómsmrh. vildi verja starf ríkisgjaldanefndar og komst þannig að orði, að hún hefði opnað almenningi glöggt yfirlit um útgjöld ríkissjóðs. En ég hafði sagt, að n. hefði ekki annað gert en að tína upp úr opinberum skýrslum og reikningum og semja heildarskýrslu, sem svo var gefin út á prent, en að allt þetta starf hefði hver óvalinn maður í stjórnarráðinu getað unnið. Þessi heildarskýrsla er að vísu fróðleg en svarar áreiðanlega ekki kostnaði.

Hæstv. dómsmrh. vildi ekki kannast við, að landbúnaðarnefndin hefði ekki afrekað mikið, því að hún hefði haft mörg og merkileg mál meðferðis. Það má nú kannske til sanns vegar færa, að hún hafi tekið sér margt fyrir hendur, en um hitt eru allir sammála, að till. hennar hafa lítinn stuðning haft innan þings eða utan. Og á meðan svo er, fæ ég ekki séð, að um mikinn árangur af starfi hennar sé að ræða.