13.04.1932
Efri deild: 50. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Mér finnst spaugilegt að hlusta á umr. á milli hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Snæf. Þeir hafa báðir verið að tíunda syndir flokka sinna og hver hafi meira eytt í kostnað við dýrar mþn. Báðir hafa talið allmyndarlega fram og því vandi nokkur að gera þar upp á milli. Það er sjálfsagt rétt, að flestar þessar n. hafa reynzt talsvert dýrari en afrakstrinum af störfum þeirra svarar; sennilega hefir þó fossanefndin sællar minningar orðið drjúgust um alla eyðslu.

Allar þessar umr. hafa sprottið út af till. þeirri, sem hér liggur fyrir um skipun mþn. til þess að rannsaka iðnað og iðnaðarmál landsmanna. Og er svo að sjá, sem allt í einu hafi einhver sparnaðarandi gripið báða aðalflokka þingsins, þar sem þm. þeirra lýsa nú yfir og viðurkenna takmarkalausa kaupgræðgi, sem átt hafi sér stað hjá ýmsum nm. úr flokkum þeirra, en aftur á móti lítill eða enginn árangur sjáanlegur af starfi hinna mörgu n. Af þessum ástæðum eru nú komnar fram till. um það, að nefnd sú, er hér um ræðir, skuli starfa kauplaust. En þó að segja megi, að einhverjir menn hafi einhverntíma áður fengið of mikið kaup fyrir lélegt eða illa rækt starf, þá er ég mótfallinn því, að menn séu settir í n. og ætlað þar að vinna kauplaust. En hitt er líka sjálfsagt, að takmarka fyrirfram, hvað mikið skuli greiða fyrir starfið, en ekki láta nm. einráða þar um.

Frá mínu sjónarmiði séð eru því till. þær, sem fram eru bornar á þskj. 376 og 390 um að nefndin vinni kauplaust, ranglátar. Ég skil ekki, hvers vegna ætti frekar að skylda menn til að starfa kauplaust fyrir iðnaðinn en landbúnað og sjávarútveg. Hér er því ekki um annað en hræsni að ræða hjá þessum þremur hv. þm., er að till. standa.

Nú vildi ég mælast til við hæstv. forseta, að umr. verði frestað og málið tekið af dagskrá, svo að mér gefist tækifæri að koma með brtt. um, að hver nm. fái einhverja ákveðna borgun fyrir starf sitt, t. d. eins og 300 kr., sem teljast verður fremur örlítil þóknun en nokkur borgun. Það er ranglátt að hlaupa nú til og samþ. að láta eina n., sem rannsaka á stóra atvinnugrein, starfa kauplaust, á meðan starfandi eru í landinu nefndir fyrir aðrar atvinnugreinir og fá há laun hjá ríkinu. Og þó hæstv. dómsmrh. sé alltaf að hæla sér af og minna á, að hann hafi unnið þetta og hitt kauplaust og gefið eftir af launum sínum, þá er það af sama toga spunnið og till. þeirra þremenninganna — að n. vinni kauplaust —, að hér er um hræsni að ræða, og ekkert annað. Eða kannske hæstv. dómsmrh. ætli mönnum að trúa því, að hann hafi alltaf unnið kauplaust og verið ríkissjóði alveg kostnaðarlaus? Með þessu er ég þó ekki að taka undir það, að allar framkvæmdir hæstv. ráðh. hafi verið óþarfar.

En sem sagt eru það tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann taki málið af dagskrá, svo að ég geti komið með brtt. Mér finnst hart að skylda fátæka menn til að vinna kauplaust fyrir fjöldann, þegar aðrir menn, sem í nefndum starfa, fá fullt dagkaup hvort sem þeir vinna eða ekki. Enda verð ég að líta svo á, að það sé í fyllsta máta sanngjarnt, að þeir menn, sem skipaðir verði í þessa iðnaðarmálanefnd, fái a. m. k. 300 kr. þóknun hver.