15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þegar mál þetta var hér síðast til umr., þá barst talið nokkuð að öðrum mþn., sérstaklega fyrir tilstilli hv. þm. Snæf. Ég minntist þá á og rakti nokkuð, að það væri ekki rétt, sem hv. þm. hélt fram, að milliþinganefndir síðustu ára hefðu verið bæði dýrar og gagnslitlar. Ég sannaði þá, að nefndir hefðu verið settar í þýðingarmikil mál, sem biðu lausnar, og af starfi þeirra hefði orðið töluverður árangur, og stór mál eins og t. d. búnaðarmálin komizt á dagskrá hjá þjóðinni fyrir þeirra atbeina. Í þessu sambandi sagði hv. þm., að það kæmi sér ekki við, þó aðrar stj. hefðu skipað dýrar mþn., því að ekki bæri hann ábyrgð á því. Það var yfirleitt ekki hægt að skilja hv. þm. öðruvísi en svo, að hann teldi mþn. í einu vera fjarstæðu og nýmæli núv. stj.

Eins og ég hefi áður bent á, þá starfaði dýrasta mþn. á árunum 1917–1920, þegar flokkur hv. þm. var í meiri hl. Árangurinn af starfi þeirrar n. varð, eins og menn vita, lítill. Hv. 1. landsk. gat þess, að sinn flokkur bæri ekki ábyrgð á þessari n.; hana bæri atvmrh. sá, er þá var og var framsóknarmaður. Vitanlega er þetta rangt, því þótt störf n. heyrðu undir atvmrn., þá var hún skipuð samkv. ályktun Alþingis, og í henni voru m. a. þeir Guðm. Björnson landlæknir, hv. 2. þm. Reykv. og hv. 1. landsk. Þessir menn voru allir í n. árum saman og þangað settir af stærsta flokki þingsins, sem þá var, Heimastjórnarflokknum. Ennfremur er það vitanlegt, að atvmrh. gat ekki ákveðið kostnað við nefndarstörfin. Fjmrh. átti þar úrslitaatkv., en fjmrh. voru á því tímabili þeir Björn Kristjánsson og Sigurður Eggerz.

Annars skal ég út frá einni þeirri n., sem hv. þm. Snæf. fordæmdi, ríkisgjaldan., minna á, að hans flokkur hefir einmitt borið fram till. um að skipa svipaða n. núna, og ekki hefi ég heyrt neina óánægju hjá honum út af því. Slíka vinnu þarf vitanlega að inna af hendi öðruhverju. Upp af starfi ríkisgjaldan. eru sprottnar ýmsar breyt., er á eru komnar í sparnaðarátt. Upp úr starfi hennar komst hreyfing á prentsmiðjumálið. Hannes Hafstein hafði á sínum tíma reynt að leysa það mál, en ekki komið því fram á Alþingi. En þegar nú lágu fyrir frá starfi n. skjöl og skýrslur, er sýndu ljóslega, hvað gífurlega stór liður hin fasta prentun ríkissjóðs er á ári hverju, þá var skapaður grundvöllur til að byggja á. Og síðan var ríkisprentsmiðjan stofnuð. Hv. þm. mun ekki vera ókunnugt um það, að hagnaðurinn af henni hefir orðið 50–60 þús. kr. á ári. Auk þess eru að henni stórmikil þægindi fyrir landið, og það mun almennt talið, að vinna prentsmiðjunnar hafi ekki aðeins orðið landinu til gagns, heldur líka til sóma. — Annað, sem spratt af starfi n., voru hin sameiginlegu innkaup til spítalanna og annara ríkisstofnana. Áður var þetta allt í reiðileysi, hver stofnun sá um sig og innkaupin urðu öll stórum dýrari en þau þurftu að vera. Á fyrsta útboðinu, sem gert var á kolum til 2 varðskipanna um eitthvað 3 mán. tíma, spöruðust 4000 kr. Síðan hefir þessu verið haldið áfram og sparnaðurinn orðið í svipuðu hlutfalli. Það er því ekki vafi, að sparnaðurinn allur hefir numið tugum þús. kr. á ári, auk þess, sem þetta hefir tryggt ríkinu betri vöru.

Ég get minnt á eitt enn, sem sprottið hefir af starfi þessarar n. Meðan núv. hv. 1. landsk. var landsverkfræðingur gerði hann einn góðan hlut; hann kom hér upp vísi að smiðju fyrir landið. Það er jafnsjálfsagt fyrir ríkið að eiga smiðju til sinna afnota eins og fyrir stórt afskekkt sveitaheimili. En eftir hv. 1. landsk. tók við starfi hans maður, sem ekki hafði trú á þessu fyrirtæki og lagði smiðjuna niður. Upp af starfi ríkisgjaldan. komst hreyfing á að endurreisa smiðjuna; nú starfa þar um 40 manns, og mun þetta vera bezta smiðja í bænum og ríkið sparar fé stórlega á ári hverju vegna hennar, auk þess, sem hún tryggir landinu betri vinnu og greiðari framkvæmd en áður.

Ég gæti talið fleira, sem runnið er frá starfi þessarar n., en ég vil ekki tefja tímann á því að telja það. En mér fannst rétt að skýra frá þessu, þar sem hv. þm. Snæf. hefir dæmt um þetta af ókunnugleika, en sennilega ekki af löngun til að halla réttu máli, og ég tel ekki rétt að dylja þingið um árangurinn af þessari skipulagsbreytni.

Ég býst við, að hv. þm. skilji líka, að till. sú, er hér liggur fyrir, sé nauðsynleg til þess að ísl. iðnaður fái náð meiri þroska. Á krepputímum eins og nú eru hefir efling innlends iðnaðar náð meira þjóðarfylgi en áður, og þar sem við erum algerlega byrjendur á þessu sviði og mest af framleiðslu okkar eru hrávörur á frumstigi, þá er ástæða til að halda, að þetta spor geti orðið undirstaða mikilla umbóta í atvinnumálum landsins.

Þær 3 till., er hér eru fram komnar um að stilla kostnaðinum af nefndarstörfunum í hóf, tel ég heppilegar og mun greiða atkv. með þeirri, sem ætlar nm. nokkra þóknun.