15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Halldór Steinsson:

Ég þarf eiginlega ekki að svara hæstv. dómsmrh., því hann hefir ekkert af því hrakið, sem ég færði fram. Hann sagði, að ég hefði haldið því fram, að skipun mþn. væri fjarstæða, en því hefi ég aldrei haldið fram. Það, sem ég lagði áherzluna á, var hinn gífurlegi kostnaður, sem af þeim hefði stafað, og það er aðalástæðan til þess, að draga þarf úr nefndafarganinu.

Um þá n., sem skipuð var að till. okkar sjálfstæðismanna á þessu þingi, er allt öðru máli að gegna. Sú n. vinnur kauplaust meðan á þingi stendur, en gamla ríkisgjaldan. kostaði 27 þús. kr. Og þó er ég viss um, að allt það starf, er eftir hana lá, hefði mátt framkvæma fyrir 10–15 sinnum minni upphæð. — En það var kostnaðurinn, sem verða mundi við störf þeirrar n., sem hér um ræðir, sem ég lagði aðaláherzluna á, en ekki á það, að hún kynni ekki að geta gert eitthvert gagn. Hæstv. dómsmrh., talaði um sparnað, sem hefði orðið í stjórnarráðinu og hann vildi þakka ríkisgjaldan. Ég hygg þó, að þar hafi ekki svo mikið verið sparað, að orð sé á gerandi, og slíkt fer nokkuð eftir því, sem það er reiknað. Það er t. d. hægt að sýna það á pappírnum, að ríkisprentsmiðjan beri sig. En það er hægt að láta líta svo út, með því að reikna ríkinu prentunina nógu hátt. Það er því spurning, hver gróði er að bæði henni og öðrum ríkisstofnunum, sem komið hefir verið á fót nú í seinni tíð.