03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3267)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Eins og þessi till. var borin fram í Ed. af stj., þá er auðséð, að ruglað var saman hugtökunum iðja og iðnaður. Málið var kennt við iðnað, en eftir innihaldi þess var auðséð, að það laut aðallega að iðju. Og það er hreint ekki laust við, að þessi misskilningur loði við það enn.

Þetta tvennt, iðja og iðnaður, er óskyldara en menn í raun og veru vara sig á. Iðn er eiginlega handverk, en iðja er verksmiðjurekstur. Ég get vel skilið, að frekar sé ástæða til að athuga iðju en iðnað. Þau mál eru skipulagsbundin. Iðnaðarmenn hafa með sér félag og yfirstjórn þess vakir yfir málum iðnaðarins, sem sjá má af þeim óskum, er þeir hafa sent Alþingi. Iðnráðið hefir sent þessar óskir og kröfur, og þær þaulhugsaðar. Eitt slíkt mál kom snemma fyrir þingið. Var því vísað til allshn. og hefir það legið þar síðan sem lík liggur rólegast í gröf sinni. Vil ég nota þetta tækifæri til að spyrja hv. form. allshn., hvers vegna það kemur ekki frá n. Hefði verið nær að afgr. það heldur en að flýta þessu og mæla jafnstuttlega fyrir því og hann gerði.

Þessi till. er óþörf vegna iðnaðarins. Iðnaðarmenn eru á verði um sín mál. En í þeim málum, er að iðju lúta, er stórt verkefni framundan. Og ef ríkið treystir sér til að sinna þeim, þá er þar á miklu að taka. Ed. hefir líka skilið þetta og breytt till. svo, að hún lýtur nú að iðju, enda á n. að vera þannig skipuð, að þar er í fæstum tilfellum um menn að ræða, er nokkurt vit hafa á iðnaði, svo sem vænta má, að sé um fulltrúa frá S. Í. S. eða Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. En þessir aðiljar geta þar á móti verið heppilega valdið þegar um iðju er að ræða, svo sem að vinna söluhæfar vörur úr hráefnum. Sýnir þetta glöggt, hvert iðjan stefnir. Þá getur það verið heppilegt, að fulltrúar landbúnaðar og sjávarútvegs eigi fulltrúa í slíkri nefnd. Þar er einmitt helzt um verkefni að ræða. Ég mun þó fylgja till. hv. þm. Vestm. um að vísa þessu máli til stj. Ég álít ekki rétt að skipa slíka n. nú. Ég sé að vísu á till., að n. er ætlað að starfa kauplaust. En kostnaður við nefndarstörfin á þar á móti að greiðast úr ríkissjóði. En þetta þýðir bara það, að n. getur sjálf lagt til minni vinnu í þetta, en verður að kaupa sér þeim mun meiri aðstoð, sem þá greiðist úr ríkissjóði samkv. till. Ef starf n. á að koma að gagni, þá hlýtur það að verða mjög umsvifamikið. Ég get hugsað mér, að það kosti m. a. ferðir út um lönd, einkum til að leita markaðar, sem máske yrði aðalstarf slíkrar n. T. d. er það svo með ullina, sem að vísu er kannske seljanleg í lengstu lög, en fyrir svo lítið verð, að varla svarar verkunar- og flutningskostnaði. Það gæti verið mikils virði, ef hægt væri að finna upp á að gera úr henni ákveðið plagg eða flík, sem hægt væri að afla ábyggilegs markaðar. Það gætu verið peysur, sokkar eða eitthvað annað. Mér dettur það t. d. nú í hug: að möguleiki gæti verið í sambandi við vetrarferðir í Alpafjöllin. Þar er rakið mikið vetrarsport. Ef svo væri á haldið, að þar yrði tízka að nota eitthvað úr íslenzkri ull, rósavettlinga, peysur grófar en hlýjar eða eitthvað annað þessu líkt, þá gæti okkur næstum verið borgið með okkar ull. Það er ekkert aðalatriði, að þetta væri ódýrt. Það mætti vera dýrt, bara að það þætti viðeigandi og að eftir því væri sótt. Þetta er nú máske bara hugmyndaflug, en ég tók það sem dæmi til að sýna, hvað slík n. ætti að gera. Það þarf a. m. k. meira að gera en að 5 manna n. komi saman á nokkra fundi, sitji þar með hönd undir kinn og íhugi mál iðnaðarins. Það var rætt um þetta í sambandi við till. frá hv. þm. Mýr. Þá kom líka fram sá skilningur, að hér væri einkum um það að ræða að leita að markaði. Þótt erfiðir tímar ættu ef til vill að ýfa undir, að það væri gert, þá er þó um tilraunir að ræða, sem misheppnast kunna fyrst í stað, sem svo margar aðrar. Ég fyrir mitt leyti er ekki viðbúinn að greiða atkv. með því, að lagt verði út í mikinn kostnað til þess í erfiðu árferði og þröngum hag ríkissjóðs. Ég mun því, enda þótt ég í sjálfu sér sé ekki á móti þessari till., eftir að henni var breytt í Ed., greiða atkv. með till. hv. þm. Vestm. um að vísa þessu máli til stjórnarinnar.