03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3269)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Steingrímur Steinþórsson:

Hv. 1. þm. Rang. hefir sparað mér langa ræðu með því, er hann sagði. En ég vil samt segja nokkur orð út af þeim andmælum, sem komið hafa fram gegn till.

Það er nú ekki langur tími liðinn síðan „íslenzka vikan“ svokallaða var haldin með mikilli viðhöfn hér í höfuðstað okkar og víðar. Þá var herópið að nota íslenzka framleiðslu og afurðir landsins sem allra mest. En mér fannst þeir tónar, er komu frá andmælendum þessarar till. nú, vera nokkuð hjáróma við þetta heróp, sem fyrir skömmum tíma var á allra vörum. Iðnaðarmálum okkar er svo háttað, að þau eru í hinum mesta ólestri. Efnivörur þær, er við framleiðum, eru fluttar óunnar út og seldar fyrir sama og ekkert verð. Þetta er þó máske átakanlegast með landbúnaðarafurðirnar, t. d. húðir og skinn. Stórgripahúðir eru seldar fyrir eitthvað 4–6 kr. eða minna. Við flytjum svo inn dýrar leðurvörur og verðum máske að láta 10–15 dilksgærur fyrir eina nothæfa skó. Hér er því sannarlega í óefni komið. Eins og nú er háttað væri fátt hægt að gera betra til bjargar landbúnaðinum en ef hægt væri að finna upp leiðir, sem gerðu framleiðsluna verðmeiri. Þá væri stigið drjúgt spor í þá átt, ef hægt væri að gera verðmæta vöru úr skinnunum. Svipað má segja um ullina, þótt hún að vísu sé meira notuð innanlands. — Þá hygg ég og, að þessu sé eins varið með sjávarútveginn. Þar mun líka margt geta komið til greina sem vert er gaumgæfilegrar athugunar.

Andmælendur till. hafa sagt, að á þessum tímum væri ekki leggjandi í þann kostnað, sem af því leiðir að athuga þessi mál. En ég vil segja, að vegna þess mikla verðfalls, sem orðið er á framleiðslunni, þá erum við nauðbeygðir til að athuga þessi mál, og það einmitt á þessum erfiðu tímum.

Hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Vestm. hafa báðir talað á þá lund, að þeir vissu ekki, hvaða ástæða væri til, að S. Í. S. og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda ættu fulltrúa í slíkri n. Hv. 1. þm. Rang. hefir svarað þessu og sýnt glögglega fram á það, að sjálfsagt sé, að báðir höfuðatvinnuvegir landsmanna eigi þar fulltrúa. Ég veit með vissu, að þörf landbúnaðarins um að eiga slíkan fulltrúa í n. er aðkallandi, og eins er því eflaust varið með sjávarútveginn.

Hitt gæti ég skilið, að einhverjir hv. dm. gætu verið mótfallnir því að einhverju leyti, hvernig n. skuli vera skipuð. En þeir ættu þá að koma fram með brtt. um annað skipulag. En hitt get ég ekki skilið, að nokkur hv. þm. skuli vera á móti því, að gerð sé tilraun um að koma þessum málum í betra horf.

Mér virðast báðir liðir till. vera þýðingarmiklir og nauðsynlegt, að gerð sé athugun um það, sem þar greinir. Hv. þm. Vestm. sagði, að stj. hefði 1. samkv. heimild til að ívilna um tollgreiðslu á iðnaðarvörum, en hefði verið treg til að nota þá heimild. Hv. þm. ætti því að vera kært, að n. gerði athugun um þetta og gerði svo till. um að losa iðnaðinn við tolla á þeim efnivörum til iðnaðar, sem eru honum skaðlegir. Ég legg því eindregið til, að till. verði samþ.

Þá töldu sömu hv. þm., er mæltu á móti till., það gagnslaust að skipa slíka n., þar sem hún ætti að vera ólaunuð og mundi því litlu koma í verk. Ég fyrir mitt leyti vil gjarnan vinna það til, að n. verði launuð sanngjarnlega, ef till. verður þá frekar samþ. Ég álít þetta svo stórt mál og geri mér það miklar vonir um árangur af starfi slíkrar n., að það væri að spara eyrinn en fleygja krónunni að láta samþykkt og gagnsemi n. stranda á lítilfjörlegri launagreiðslu.

Ég held, að ekki getið verið um mál að ræða nú, sem hafi meiri þjóðarhagslega þýðingu. Og greinilegast kemur það í ljós, þegar um er að ræða útflutning á verðlausri hrávöru út úr landinu, svo sem er með skinnin o. fl., en innflutning á samskonar vöru unninni og rándýrri. Ég hefði borið fram till. um að taka iðnað á skinnavöru til sérstakrar athugunar, ef þessi till. hefði ekki komið fram. En þar sem ég vona, að hún verði samþ., þá tel ég bezt, að athugun á því sérstaka atriði verði sameinuð því öðru, sem taka þarf til athugunar.

Hv. þm. Vestm. sagði, að stj. gæti allt að einu skipað þessa n. eftir þeim till., er hér væru lagðar til grundvallar, enda þótt þáltill. þessi yrði ekki samþ. Ég þakka hv. þm. traust hans á stj. og get sagt honum það fyrir mitt leyti, að ég vantreysti stj. ekki að skipa nefnd þessa, en ég hafði ekki vænzt þess af stjórnarandstæðingi, að hann bæri svo óskorað traust til stj., að vilja leggja þetta eingöngu á hennar herðar. Mér virðist fullkomlega eðlilegt, að höfuðatvinnuvegirnir eigi hvor sinn fulltrúa í n. þessari og fyrir því fylgi ég till. eins og hún er á þskj. 428.