03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3275)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er með öllu afsakanlegt, þó að dálítill misskilningur verði um afstöðu mína til þessa máls, því að hún er í sannleika sagt töluvert grugguð. Ég er bæði með málinu og á móti því. Ég er t. d. með því, að málið sé rannsakað, en ég veit, að það verður ekki gert nema með ærnum kostnaði, því að það hlýtur að verða mjög umsvifamikið verk. Ég er því með till. hv. þm. Vestm. um að eyða málinu á þessu þingi, sökum þess, að eins og nú standa sakir um fjárhag ríkissjóðs, er ekki forsvaranlegt að leggja út í þann mikla kostnað, sem það myndi hafa í för með sér. Að vísa málinu til stj. nú þýðir ekkert annað en að skjóta því á frest.

Mér hefir alltaf fundizt kenna talsverðs ruglings í skilgreiningunni á milli iðnaðar og iðju. Ruglingur þessi stafar af því, að orð þessi eru ranglega þýdd úr erlendu máli. Það er ruglað saman iðnaðarþjóðum og iðjuþjóðum. Iðnaður er t. d. úrsmíði, skósmíði, steinsmiði og raflagningar. Aftur er það iðja, þar sem t. d. er brætt lýsi í verksmiðjum o. þ. h.

Annars get ég viðurkennt, að það getur oft verið erfitt að greina takmörkin milli iðju og iðnaðar. Þessu tvennu er með öllu ruglað saman í till. eins og hún kom frá stj., en hv. Ed. gerði þá skilgreiningu á þessu, sem nú er í till.

Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, þá er ég sammála um skipun n. og finnst ekkert óeðlilegt við það. Hv. 2. þm. Reykv. hefir líka sýnt fram á, að það er eðlilegt, að n. sé skipuð á þennan hátt, þegar um athugun iðju er að ræða og talað er um að athuga vinnslu úr hráefnum þeim, sem framleidd eru hér á landi. Er þá eðlilegt, að þeir atvinnuvegir eigi fulltrúa í n. Iðnaðarmenn eiga og að hafa þar fulltrúa, einkum vegna þeirrar verklegu kunnáttu, sem þeir eiga yfir að ráða og geta lagt n. til. Og um Alþýðusambandið er það að segja, að þessum málum og athugun þeirra fylgir margt, sem slík sambönd láta til sín taka. Einkum er svo um allt, er að verksmiðjurekstri lýtur. Verður því skipun n. að teljast eðlileg. Ég skal þó ekki þvertaka fyrir, að þessu mætti breyta á betri veg, en mér finnst þessi skipun n. samt alveg eðlileg.

Hv. l. þm. Skagf., sem ég get verið að mestu sammála, talaði um að búa að sínu og sagði, að við ættum að gera það. Þetta er alveg rétt hugtak um þetta efni, þótt það sé stundum alveg skakkt þýtt.

Að finna hinar beztu leiðir til að nota sér sem mest sína eigin framleiðslu og koma henni í það horf, að það sé hægt, það er að búa að sínu, t. d. að gera úr skinnavörunni skó og hanzka. Ég bar nú einmitt nýlega fram till. um að styrkja íslenzka hanzkagerð, en sú till. fann ekki náð í augum hv. þdm. Við flytjum nú inn hanzka fyrir um 50 þús. kr. Það sýnist því vera vel tilvinnandi að verja 2000 kr. til þess að gera tilraun, hvort ekki er hægt að framleiða þessa vöru með íslenzkum höndum og úr íslenzkum skinnum. Það eru einmitt þau mál, sem eru þessa eðlis, sem einkum þarf að rannsaka. Og slík rannsókn þarf að vera vel unnin af vel færum mönnum, ef hún á að gera gagn. Allt kák í þessu efni er aðeins til ills. Það er því skaðlegt að setja slíka n. á stofn á þeim tíma, sem er svo erfiður, að ekkert er hægt að leggja af mörkum til þess að starf n. geti komið að fullu gagni. Þá er betra að bíða með það þangað til tímarnir batna, því ef gagn á að verða að þessu starfi, þá verður áreiðanlega að leggja í það tugi þúsunda. Ég vil ekki hrapa svo að máli þessu, að úr því verði kák eitt. Er því rétt, að það njóti betri undirbúnings hjá stjórninni til næsta þings.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að ef till. væri vísað til stj., þá gerði hún annaðhvort eitthvað í málinu eða þá að hún gerði ekki neitt. Hv. þm. orðaði þetta nú svona varlega. En eins og hv. þm. túlkaði þetta, þá vil ég eftir þeirri skilgreiningu, að stj. geri ekki neitt. Hann sagði, að stj. sjálf ætti að rannsaka málið, eða þá að hún rannsakaði það ekki neitt. En ég er mótfallinn hvorutveggja. Ég álít, að stj. geti undirbúið málið með því að safna umsögnum þeirra manna, er bezt þekkja til þessara mála, og lagt svo fram rökstuddar till., byggðar á því efni, er hún fær, fyrir næsta þing. Ég mun því greiða atkv. með því að vísa máli þessu til stj. En þau ummæli læt ég fylgja frá mér, að hún á ekki að gera neitt í þessu máli, að mínum vilja, annað en það að safna umsögnum og skýrslum, er að þessu lúta. En verði sú till. felld, þá er ég því samþykkur, að n. verði greitt kaup, því ella yrði það kák eitt, sem n. gerði, eða þá að hún yrði að kaupa þeim mun meiri vinnu af öðrum, en það álít ég óheppilegri leið.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, að dráttur á skipun slíkrar n. um 1 ár væri að spara eyrinn, en fleygja krónunni. En það er nú svo oft, þegar fátækt og erfiðleikar eru, að það verður að draga ýmsar þær framkvæmdir, sem í sjálfu sér eru æskilegar og jafnvel líklegar til að skila góðum arði einhverntíma í framtíðinni. Við verðum nú um stund að þola hlutskipti hins fátæka manns, sem verður að neita sér um ýmislegt og fara á mis við ýms gæði, sem ekki er hægt að leggja fé út fyrir: Ég fyrir mitt leyti get ekki búizt við skjótum árangri af þessu hvort sem er. Þessi mál verður að rannsaka gaumgæfilega, og það tekur langan tíma. Og enn lengri tíma tekur það svo að koma því í framkvæmd, sem upp af starfi n. sprettur. En eitt hið mesta verkefni, er betur árar, verður það að koma þessum málum í æskilegt horf.