10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (3279)

61. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. landbn. Nd. (Þorleifur Jónsson):

Hvað mál þetta snertir, þá hefir aðeins orðið ágreiningur um eitt atriði á milli landbn. Ed. og Nd., sem sé það ákvæði, hvenær lögin eigi að ganga í gildi. Landbn. Nd. hafði ákveðið, að þau skyldu ganga í gildi 1. jan. 1933, og var það samþ. í deildinni við hverja umr. eftir aðra, en Ed. breytti þessu. Þó ekki sé hér um stórmál að ræða, þá hefir landbn. Nd. samt flutt brtt. um að færa frv. í það form, sem það var samþ. í við allar umr. í Nd.

Hv. Ed. hefir litið svo á, að mál þetta væri svo erfitt, að það þyrfti langan undirbúningstíma. En á þetta hefir landbn. Nd. ekki getað fallizt. Hún telur, að þar, sem næst í dýralækni, þurfi ekki langan undirbúningstíma, því að þeir kunna að, fara með svæfingarlyfið. Sama máli er að gegna um menn, sem lært hafa að gelda hesta hjá dýralæknum. Þeir geta ekki þurft langan tíma til þess að læra að fara með þessi svæfingarlyf, en þeir eru ekki svo fáir, og ég býst fastlega við, að þeir séu einhverjir í hverri sýslu landsins. Líka hefi ég heyrt, að þegar sé farið að viðhafa þessa aðferð við geldingar hesta í ýmsum héruðum, t. d. í Borgarfjarðarsýslu. Ég fæ því ekki séð, að það sé ekki nægilegur undirbúningstími frá því að lögin ganga í gildi og þar til ákvæði þessi koma til framkvæmda. Sýslunefndir geta t. d. nú þegar farið að láta menn búa sig undir þetta, og til þess verður að teljast nægilegur tími þar til vorið 1933, að gelding hesta fer fram skv. ákvæðum í lögum. En verði frv. samþ. eins og það er nú, þá líða enn 21/2 ár þar til farið verður að nota þessa mannúðlegu aðferð, en það teljum við óþarflega langan undirbúningstíma. Landbn. Nd. virðist þetta líka óþarflega langur frestur, þegar þess er líka gætt, að fyrr á tímum, þegar lítið var um lærða lækna, fengu þeir oft ólærða menn til þess að hjálpa sér við uppskurði, og þá til þess að svæfa sjúklingana. Þetta heppnaðist oftast vel. Hefðu læknarnir ekki árætt þetta, hefðu þeir staðið uppi ráðalausir, en það hefði getað orðið mörgum manninum að aldurtila. Ég held því, að varfærni hv. Ed. í þessu efni sé á of háu stigi, því að ég verð að álíta, að það, sem fyrir henni vakir, sé varfærni ein, en ekki það, að hún vilji þessu mannúðarmáli illa, því eins og kunnugt er, er frv. þetta einn liðurinn í þeirri löggjöf, sem sett hefir verið um mannúð og mildi dýrunum til handa. Að nauðsyn beri til að halda áfram á þeirri braut að vernda dýrin fyrir vondri og ómannúðlegri meðferð, býst ég við, að allir séu sammála um. — ég skal svo ekki verða þess valdandi, að um mál þetta verði eins miklar umr. og það, sem síðast var verið að ræða hér, en vænti þess, að brtt. landbn. Nd. verði samþ., svo að ákvæði frv. komi sem fyrst til framkvæmda, en á því er full nauðsyn.