31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (3286)

243. mál, síldarmat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ég var ekki við, þegar þetta mál lá fyrir til l. umr. í d., en ég tel rétt, að frá n. fylgi nokkur orð, og geta þau alveg eins átt við nú eins og við 1. umr. Um ástæður til þess, að þetta frv. er borið fram, þarf ekki að fjölyrða, því þær eru teknar fram í grg. frv. En um efni frv. og einstakar gr. vildi ég fara nokkrum orðum. Svo sem stendur í grg., þá er frv. í flestum aðalatriðum byggt á frv., sem lagt var fyrir þingið 1928. Var það frv. samið af mþn., sem atvmrn. hafði skipað til þess að endurskoða þáv. löggjöf um síldarmat. Þó hefir sjútvn. fundizt ástæða til að víkja nokkuð frá þessu frv. frá 1928, og er það aðallega í 4. gr. þessa frv.

Í frv. frá 1928 var svo ákveðið, að öll síld skyldi flokkuð eftir stærð og gæðum. Þótt slíkt mat sé nauðsynlegt, þá er það svo mikið verk að flokka alla síld eftir stærð, að ekki er hægt að búast við, að því fáist framgengt fyrr en eftir langan tíma. Er þá gagnslaust að hafa slíkt ákvæði í l. Því er það ákvæði sett inn í 4. gr., að fyrst um sinn skuli aðeins 15% af síldinni flokkað eftir stærð, en 80% einungis eftir gæðum. En svo er gert ráð fyrir því, að viðkomandi ráðh. geti með reglugerðarákvæði aukið þá síld, sem flokkuð er eftir stærð, um 15% á ári. Hyggur n., að á þann hátt geti það náðst, að öll síld verði að lokum flokkuð eftir stærð, eins og tíðkast hjá öðrum þjóðum. En að flokka síld eftir stærð er svo mikið verk, að ekki þykir fært að fara harðar í það meðan fólk er óvant og eftirlitsmenn líka.

Þá hefir n. gert nokkrar smærri breyt. frá frv. 1928, en þær eru þess eðlis, að þær munu varla valda ágreiningi. Eftir matslögum þeim, er áður giltu, var skipum heimilt að láta meta síld, sem þau höfðu látið salta úti á sjó í tunnur. Þessu var haldið í frv. 1928, en nú hefir n. þótt rétt að fella þetta burt, vegna þess að hætta þykir á, að slík síld verði ekki góð vara, og svo er mjög tvísýnn hagur fyrir skipin að framkvæma þessa söltun, sem kostar töluverðan útbúnað.

Þá vil ég enn geta einnar breyt., sem n. hefir gert. Hún er sú, að ekki er ákveðið í frv., hvar aðsetursstaður yfirmatsmannsins á Austfjörðum skuli vera. Áður var ákveðið, að hann ætti setu á Seyðisfirði. En nú er þetta látið óbundið. Þetta byggist á því, að sumir firðir aðrir eru aflasælli en Seyðisfjörður og því meira að meta þar. Að binda aðsetursstaðinn við Seyðisfjörð var t. d. ekkert réttmætara en að binda hann við Reyðarfjörð. En n. hallaðist að því að hafa þetta óbundið og að yfirmatsmaðurinn gæti haft búsetu þar, sem bezt hentar. Það getur t. d. varla skipt máli hvað ferðakostnað snertir, því ferðalög verða alltaf nokkur, hvar sem hann situr. Að öðru leyti er frv. þetta miðað við frv. 1928 og því ekki ástæða til að fjölyrða frekar um það. N. hefir lagt mikla vinnu í að athuga þetta og kvatt sér til aðstoðar við það fyrrv. yfirmatsmann Jón Bergsveinsson og notið leiðbeiningar hans. Af frv., ef að lögum verður, stafar nokkur kostnaður fyrir ríkissjóð. Kostnað við yfirmat hefir síldareinkasalan greitt síðan 1928, en nú kemur hann á ríkissjóðinn, svo sem áður var. Undan því er ekki hægt að komast, þann kostnað er ekki hægt að taka annarsstaðar. Þessi kostnaður verður sennilega um 12 þús. kr. Ég býst við, að hægt verði að komast af með þá upphæð, eftir reynslu fyrri ára. Ég vildi taka þetta fram, svo að fjvn. þessarar hv. d. væri ljóst, hvern kostnað mundi leiða af samþ. þessa frv.

Að lokum vil ég taka það fram, að af samþ. þessara l. leiðir, að setja verður reglugerð um matið á síldinni. Sú reglugerð er aðaltrygging þess, að síldarmatið komi að notum. Hún þarf því að vera vel samin og nákvæm. Vil ég því leggja áherzlu á, að vel sé til hennar vandað og að stj. kveðji til ráða með sér um samning hennar þá menn, er vel hafa vit á þessu máli. Vænti ég svo, að hv. d. greiði vel fyrir frv. þessu. Og komi einhverjar aths. eða till. til breyt. fram, þá er n. fús til að taka þær til athugunar fyrir 3. umr.