23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

243. mál, síldarmat

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. er flutt af sjútvn. Ed. Eins og kunnugt er, voru afnumin síldarmatslög þau, er verið höfðu í gildi, þegar síldareinkasalan var sett á stofn, en reglum um matið fyrirkomið í lögum síldareinkasölunnar, er koma skyldi í stað hinna fyrri matslaga. Nú er síldareinkasalan lögð niður og öll lagaboð í sambandi við hana úr gildi fallin. Því hefir sjútvn. Ed. séð ástæðu til að bera þetta frv. fram. Sjútvn. þessarar hv. d. felst á, að nauðsyn sá á nærri lagasetningu um þetta efni, en er hinsvegar ekki á sama máli og sjútvn. Ed. um framkvæmd matsins. Þar sem sjútvn. Ed. gerir ráð fyrir, að skoðun og mat skuli fara fram á allri nýrri síld, höfum við að fróðra manna ráðum farið inn á aðra braut. Við teljum ekki þörf á mati á nýrri síld, og álítum eigi heldur, að slíkt mat veiti tryggingu fyrir því, að varan sé góð, þegar hún er látin í skip, nema þá fari fram á henni gagngerð skoðun, en slíkt hlýtur að hafa mikinn aukinn kostnað í för með sér.

Því miður verður að viðurkenna, að þrátt fyrir mat og skoðun á síld undanfarið, ýmist nýveiddri eða þegar hún er afskipuð, koma íslenzk matsvottorð yfirleitt að litlu gagni. Enn hefir ekki tekizt að gera matið svo úr garði, að erlendir kaupendur telji fulla tryggingu í því fyrir gæðum vörunnar. Þetta skýtur skökku við saltfisksmatið, sem yfirleitt er viðurkennt og nýtur trausts hjá útlendum kaupendum. Takmarkið hlýtur að vera það, að koma síldarmatinu í sama horf með tíð og tíma.

Sjútvn. Nd. hefir því eigi viljað leiða inn skyldu um mat á nýrri síld, heldur aðeins kveða svo á í frv., að ný síld skuli metin, ef aðilar óska þess. Þessi ósk getur komið fram af fleirum en einni ástæðu, en þó einkum af tvennu. Hún getur einkum komið fram þegar samningar eru á milli veiðiskipa og saltenda í landi og ágreiningur verður um gæði á síld. Í öðru lagi getur verið, að síld sé flutt út innan þess tíma frá söltun, sem hægt er að meta síldina sem saltaða síld, en sá tími er 3 vikur. Í slíku tilfelli getur vel komið fyrir, að seljendur óski mats á síldinni nýrri. Þetta getur að vísu komið fyrir af fleiri ástæðum, en oftast mun önnurhvor þessi ástæða valda því, ef slík ósk kemur fram.

Aðalbreyt. frá frv. er sú, að sjútvn. liggur til, að nýja síld skuli því aðeins meta, að aðilar óski. Hins vegar vill n., að skylt sé, að síldin sé metin áður en hún fer á skipsfjöl.

Við höfum einnig gert afbrigði frá frv. að því er snertir fjölda yfirmatsmanna. Í frv. er gert ráð fyrir, að þeir verði 4, með 2000 kr. árslaunum. Sjútvn. leggur hinsvegar til, að yfirmatsmaður verði aðeins einn með 4000 kr. launum. Þessi laun eru að vísu ekki há, en þar sem gert er ráð fyrir, að hann fái ferða- og símakostnað endurgreiddan, má telja víst, að fá megi hæfan mann fyrir þessi laun. En menn, sem aðeins fá 2000 kr. á ári, geta ekki haft matið að aðalstarfi. En þótt launin séu hér eigi áætluð hærra en 4000 kr., er hér tilætlunin, að yfirmatsmaðurinn hafi matið að aðfalstarfi, en undirmatsmennirnir séu valdir af lögreglustjórum eftir tillögum hans. Við gerum ráð fyrir, að yfirmatsmaðurinn ferðist á milli síldarstöðva til að leiðbeina um matið og fari til útlanda í samráði við atvmrh. til að kynna sér óskir og kröfur kaupenda og markaði fyrir íslenzka síld. Þetta eru þær tvær höfuðbreyt., sem n. hefir gert á frv., að ákveða útflutningsmat í stað söltunarmats og að hafa einn yfirsíldarmatsmann í stað fjögurra.

Þá höfum við tekið upp í till. okkar samskonar ákvæði um ábyrgð matsmanna á verkum sínum og úrskurðum og eru í l. um fiskimat. Við ætlumst til, að ef það sannaðist, að matsmaður leggi hlutdrægan úrskurð á vöru, þá eigi sá, sem fyrir tjóninu verður af hans völdum í þessu efni, kröfu á hann til bóta á þeim skaða, er hljótast kynni af slíkum úrskurði. Þetta er eins og ég drap á, alveg í samræmi við þá ábyrgð, sem nýlega hefir verið lögð á herðar fiskimatsmönnum landsins í þeirra starfi.

Til þess að koma þessum breyt. á, varð n. svo að segja að umsteypa frv. (HStef: Og eyðileggja það.) og koma með víðtækar brtt., eins og þskj. 400 ber með sér. Ennfremur má geta þess, að sjútvn. þessarar d. vildi taka tillit til þess, sem farið er að tíðkast með yngri síld en þriggja vikna. Það er vitanlegt, að seinni árin hefir verið tekið upp það ráð að flytja út léttsaltaða síld. Það fyrirkomulag hefir átt talsverðum vinsældum að fagna í Þýzkalandi, þar sem aðalmarkaðurinn er fyrir þá síld. Það er hin svo kallaða „matjes“-söltun, sem Skotar og Hollendingar nota og er alþjóðlegt heiti á þeirri söltunaraðferð. Sú síld, sem þannig er flutt út, á ekki að þurfa að vera matsskyld, þegar matið er bundið við fullsaltaða síld, sökum þess að regluleg saltsíld verður ekki metin fyrr en hún hefir legið a. m. k. 20 daga í salti. Í till. okkar er ekki gert ráð fyrir því, að mikið af saltsíld verði flutt út svo nýtt og létt saltað, að ekki komi til með neitt mat. Þessar till. eru afleiðingar af því, sem markaðurinn krefur, standa í sambandi við fengna reynslu og eru samkv. till. fjölda síldarverkunarmanna á síldveiðasvæðinu. Hv. 1. þm. N.-M. skaut hér inn í, að breyt. okkar miðuðu að því að eyðileggja frv. Þetta er alrangt.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orði um brtt. n. Sumar af till. frv. hafa verið teknar upp breyttar, aðrar lítið breyttar, þótt við séum frv. ekki sammála í þessum tveim höfuðatriðum, sem ég minntist á. Að öðru leyti ber þskj. 450 greinilega með sér, hverju við viljum fylgja í frv. og hverju ekki. Ég vil aðeins leggja áherzluna á það, að okkar till. eru fram komnar í sambandi við það, sem reynslan hefir sýnt og þörfin krefur nú um meðferð síldarinnar.