17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (3316)

243. mál, síldarmat

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Ak. sagði, að það væri ekki meiningin að fella niður fersksíldarmatið nema sem skyldumat. En með því að fella það niður sem skyldumat er burt numin öll sú þýðing, sem þetta mat getur haft, því að þeir, sem biðja um mat á sína síld, eru það samvizkusamir, að þeir geta vel gætt þess sjálfir, að síldin sé óskemmd hjá þeim. Matið er til orðið vegna þeirra manna, sem líklegir væru til að selja skemmda vöru, en eftir till. sjútvn. Nd. eiga þeir, einmitt þeir, sem helzt þarf að líta eftir, að geta sloppið við allt mat.

Hv. þm. talaði um það, að fersksíldarmatið væri ekki tekið gilt af útlendingum. Það hefir ekki heldur dottið neinum í hug, að það ætti að verða tekið gilt sem útflutningsmat. Það á bara að tryggja, að síldin sé ekki skemmd, þegar hún er söltuð. En ég get sagt hv. þm. það, að útflutningsmatið er stundum ekki tekið gilt heldur. Það hefir oft komið fyrir, að útlendingar hafa keypt síld, sem var úrskurðuð góð, þegar hún var flutt út, og síðan fengið erlenda matsmenn til að skoða hana, og þá hefir hún verið dæmd óhæf sem verzlunarvara. Við erum því engu nær, þó að við höfum þetta ágæta útflutningsmat, sem hv. þm. mælir svo mikið með. Sannleikurinn er sá, að þegar mikið berst af af síld og verð fer lækkandi, þá leita kaupendur allra ráða til að losna við gerða samninga, þ. a. m. að fá matsmenn í sínu heimalandi til að meta síldina óhæfa verzlunarvöru, í þeirri von, að þeir geti komizt síðar að betri kaupum.