17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

243. mál, síldarmat

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mér virðist þessu máli þannig komið, að til allmikilla vandræða horfi fyrir síldarútgerðina á komanda sumri. Sá ágreiningur, er upp hefir risið milli sjútvn. Ed. og Nd., er út af fyrir sig ekki mikill, en þó lýtur helzt út fyrir, að hann verði til þess, að engin lög um síldarmat verði afgr. frá þessu þingi, þar sem þingsköp mæla svo fyrir, að í Sþ. þurfi 2/3 hlutar alls þingheims að vera frv. fylgjandi til þess að það verði lögfest.

Mér virðist út frá mínu leikmannssjónarmiði, að talsverð vandræði geti hlotizt af þessu fyrir þennan atvinnuveg, þegar á heildina er litið. Það hlýtur að verða þessari atvinnugrein til skaða, ef þetta frv. verður fellt og engar hliðstæðar ráðstafanir verða gerðar af hálfu þess opinbera til að reyna að tryggja sölu þessarar voru, með því að hafa á henni opinbert mat. Það þarf ekki annað en að benda á það, hver áhrif það hefði á álit manna á þessum atvinnurekstri, ef niður yrði fellt að mestu eða öllu leyti það eftirlit, sem haft hefir verið með útflutningi þessarar vöru. Það er enginn vafi, að það mundi verða til hins mesta ógagns fyrir þennan atvinnuveg í heild í framtíðinni, þó að einstakir menn kynnu að hafa eitthvað upp úr því í bili. Ég álít því, að það sé óforsvaranlegt af Alþ., ef það afgr. ekki einhver lög um þetta, sem veita mönnum þó einhverja tryggingu í þessu efni.

Ég skal játa, að ég hefi ekki mikla aðstöðu til að gera upp á milli skoðana Ed. og Nd. í þessu máli. En þó liggur nærri að hallast frekar að till. Ed., af því að hún byggir till. sínar á þeirri reynslu, sem fengin er, og skoðunum þeirra manna, sem kunnugastir eru þessum málum. Það skipulag, sem n. í Nd. stingur upp á, er aftur á móti nýtt og engin reynsla fengin fyrir því. Og þar sem við verðum að ganga út frá því, að mat á síld eigi að fara fram eins og á öðrum útflutningsvörum, þá finnst mér, að þeir, sem stinga upp á þessu nýja skipulagi, verði að sætta sig við að láta það gamla skipulag standa, meðan það nýja hefir ekki fengið nægilegt fylgi, en taka málið þá upp af nýju á næsta þingi og reyna þá að vinna þessum nýju kenningum sínum fylgi.

Þetta er það, sem ég vil biðja hv. þm. að athuga. Alþ. má með engu móti skjóta sér undan þeirri skyldu og ábyrgð, sem á því hvílir í þessu efni. Það má alls ekki skiljast svo við þetta mál, að engin matslög séu til þessum atvinnuvegi til styrktar.