17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (3319)

243. mál, síldarmat

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. sagði, að vandræði gætu hlotizt af, ef engin lög væru til um síldarmat. Ég sé satt að segja engan mun á því, hvort engin lög eru til eða þá að þetta frv. verði afgr. eins og Nd. gekk frá því, því eins og ég er margbúinn að sýna fram á og hv. þm. Nd. hafa ekki borið á móti, þá verður samkv. frv. Nd. í raun og veru ekkert mat framkvæmt.

Út af því, sem hv. þm. Ak. sagði, að það mundi máske geta hent óhlutvanda nýgræðinga við síldarútveginn að selja skemmda vöru, þá vil ég bara trúa honum fyrir því, að til þess gæti ég engu síður trúað gömlum síldarspekulöntum heldur en nýgræðingum í þeirri atvinnugrein.