12.03.1932
Neðri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég mun hafa kvatt mér hljóðs við fyrri hluta þessarar umr. og skal ekki lengja umr. mikið.

Við 1. umr. upplýsti hæstv. fjmrh., að allar tekjur af þessum skattstofni mætti áætla 300 þús. kr. Síðast þegar þetta mál var til umr. skýrði hæstv. ráðh. frá því í sambandi við brtt. frá hv. 4. þm. Reykv., að eftir hans till. mundi skatturinn lækka um hér um bil helming, en samkv. brtt. þessa hv. þm. er þessi skattur áætlaður 212700 kr., en þar af eru 12000 kr. viðbót frá því, sem var í frv. hæstv. fjmrh. Þannig er skatturinn áætlaður eftir áætlun þessara tveggja heiðursmanna samkv. frv. 400 þús. kr., í staðinn fyrir 300 þús., eins og hæstv. ráðh. áætlaði við 1. umr.

Ég vil leyfa mér að henda hæstv. fjmrh. á það, að ef honum fyrst og fremst er annt um að afla ríkissjóði tekna, þá er honum auðvelt á annan veg en rennan að afla ríkissjóði tekna, a. m. k. eins mikilla og hann gerir rað fyrir, að fáist með þessu frv. En það er með því að koma á einkasölu á bifreiðum, gúmmi og varahlutum til bifreiða. Enginn vafi er á því, að ríkissjdður fengi þar a. m. k. jafnháa upphæð og honum er ætlað að fá með þessu frv., án þess þó að verðlag þurfi að hækka. Þar við bætist það, að landsfólkinu er meira öryggi í því, að bifreiðaverzlunin komist öll í hendur þess opinbera, svo að ekki séu fluttar inn nema góðar tegundir og nógir varahlutir séu ávallt fyrir hendi, en á það hefir oft þótt skorta.

Ef ég man rétt, þá var hæstv. fjmrh. því fylgjandi, að ríkið hefði einkasölu á víðtækjum. Alveg það sama mælir með því, að ríkið hafi einkasölu á bifreiðum og varahlutum þeirra og gúmmí o. þ. h. og jafnvel benzíni, þó að stj. þætti ekki fært að taka einkasölu á allri steinolíu.

Við Alþýðuflokksþm. munum greiða atkv. gegn frv. hæstv. fjmrh., en með brtt. hv. 4. þm. Reykv., að einni undanskilinni, þeirri að leggja þungaskatt á flutningabifreiðar. Ég tel, að af tvennu illu sé þó skárra, að samþ. verði till. hv. 4. þm. Reykv. en frv. Það, sem hæstv. fjmrh. flytur. En jafnvel þótt brtt. verði samþ., mun ég greiða atkv. gegn frv.

Engum heilskyggnum manni getur blandazt hugur um það, að þessi skattur verði til þess að auka á dýrtíðina í landinu. Flutningsgjöld hækka, fólksflutningur líka, en þar sem meiri hluta skattsins á að taka af benzíni, sem flutningabifreiðarnar nota mest, þá hlýtur skatturinn að koma langþyngst niður á nauðsynlegasta flutningnum, þungavöruflutningnum um landið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni. Eftir till. hæstv. fjmrh. verður sá bifreiðaskattur, sem nú er, þre- til fjórfaldaður, og slík skattaaukning, sem því nær eingöngu verður lögð á nauðsynjar landsmanna, er óafsakanleg í því árferði, sem nú er.

Ég óska svo að lokum hæstv. fjmrh. til hamingju með þessa arfleifð, sem hann hefir þegið af hv. þm. G.-K. Hv. þm. G.K. flutti fyrstur frv. um sérstakan benzínskatt. Framsóknarforingjar formæltu því að maklegleikum og nefndu það „litla og ljóta frv.“. Nú flytur stj. Það, og hefir gert það ennþá ófrýnilegra en það var, þegar hv. þm. G.-K. flutti það fyrst.