17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í C-deild Alþingistíðinda. (3320)

243. mál, síldarmat

Sveinn Ólafsson:

Ég ætla ekki að tefja málið frá því að koma til atkv. innan stundar og skal ekki flytja langa ræðu. Það má heita, að öllum þeim, sem talað hafa í þessu máli, hafi komið saman um það, að lögskipaða matið, sem gilt hefir og farið fram á síldinni undanfarið, hafi að litlu eða engu haldi komið. Spurningin, sem fyrir liggur, er þá aðeins um það, hvort hægt sé að láta fara fram það mat á síld hér á landi, sem kaupendur síldarinnar erlendis bera traust til. Ég get ekki álitið, að það markmið náist með því, að mat sé láið fara fram á nýrri síld, af þeirri einföldu ástæðu, að það veitir enga tryggingu fyrir því, að síldin sé góð vara þegar hún kemur á markaðinn. Þetta er búið að staðhæfa oft í umr. Eins og tekið hefir verið fram, er skoðanamunurinn á milli sjútvn. Ed. og Nd. innifalinn í því, að sjútvn. Nd. kannast ekki við, að þetta málamyndamat, sem gert er ráð fyrir á nýveiddri síld, hafi neina þýðingu eða hafi komið að liði áður, né heldur muni gagn gera; en hinsvegar er augljóst, að það hefir mikinn kostnað í fór með sér. Og það gegnir hinni mestu furðu, að sjútvn. Ed. vill fórna helmingi meira fé til síldarmatsmanna vegna fersksíldarmats heldur en sjútvn. Nd., með ráði kunnugra manna, telur nauðsynlegt að greiða úr opinberum sjóði. Það er augljóst mál, að ef ætti að framfylgja þeirri firru að meta alla nýveidda síld, þá þyrfti a. m. k. um 150 síldarmatsmenn, ef nokkur trygging ætti að vera fyrir því, að slíkt mat yrði ekki dauður bókstafur. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Ak., að það væri ekki stór skaði skeður, þótt mat á nýveiddri síld felli niður um eitt ár eða svo, og þó að síldarútflytjendur fengju þá jafnvel að reyna sig á því að flytja síldina ómetna á erlendan markað og á eigin ábyrgð. Það er öllum vitanlegt, að matið hefir verið að engu haft undanfarið af útlendum síldarkaupendum, a. m. k. fersksíldarmatið, og þess vegna er rétt að sjá, hvað við tekur, ef það verður fellt niður.