04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (3336)

157. mál, verðtollur

Frsm. meiri hl. (Halldór Stefánsson):

Ég stend upp til að minna á það, að meiri hl. fjhn. hefir ákveðið að mæla með þessu frv. Meiri hl. hefir getað fallizt á þá meginstefnu og hugsun, sem frv. er byggt á, sem er annarsvegar það, að styðja innlenda framleiðslu, og hinsvegar að nota innlenda framleiðslu sem ýtarlegast til eigin þarfa. Þetta gera aðrar þjóðir líka meira nú en nokkru sinni áður. Og það er blátt áfram sjálfsbjargar-og sjálfstæðismál fyrir okkur, að leggja nú sem mesta áherzlu á þessi atriði. Sá meiri hl., sem mælir með frv., vill þó ekki ganga svo langt í einstökum atriðum eins og hv. flm., sem sjá má á nál. hvað snertir það ákvæði frv. að auka toll á grænmeti. Grænmeti er ódýr vara, samanborið við þyngd. Þungatollurinn af því er 6 aur. á kg. og sem verðtollur misjafnt, eftir því hver tegund grænmetis það er, er þungaskatturinn frá 20–25%. En till. okkar um niðurfelling grænmetis úr frv. er þó ekki eingöngu gerð vegna þess, að á því er þar tollur áður, heldur af því, að þetta er talin holl og góð vara, og af því, að ekki er heldur hægt að segja, að við séum komnir á það stig í ræktun grænmetis, að við fullnægjum þörfinni, eða að von sé um, að það verði gert fljótlega. Okkur þótti því ekki rétt að bæta 30% á 20–25% toll, sem fyrir var. Það hefði þá orðið ósambærilegt við allar aðrar vörur. Einn nm. hefir óbundið atkv. um einstök atriði, þó hann að öðru leyti geti mælt með frv. Á þskj. 354 flytur hann till. um að fella niður úr frv. prjónagarn. Á prjónagarni er nú þungatollur, 18 aurar á kg., en ætlazt var til, að við bættist 30% verðtollsauki.

Eins og kunnugt er, þá er nú sendur út meiri hluti hinnar íslenzku ullar, sem svo selst fyrir mjög lítið verð. Hinsvegar er aðstaða til að vinna úr henni allt það prjónagarn, sem við þurfum við, ýmist á heimilunum sjálfum eða í verksmiðjum innlendum, Má því segja, að ömurlegt sé að flytja mikið inn af þessari vöru. Hinsvegar verður að jata það, að sumt fólk er svo hégómlegt, að því þykir íslenzk ull ekki hæfa sér til klæðnaðar. Má því búast við, að það fólk kaupi prjónagarn frá útlöndum, þótt það sé hátt tollað. Þarf ekki að hlífast við að tolla það, þar sem sá tollur kæmi niður á hegómagirni manna, en ekki á brýnar nauðsynjar. Ég sé þó, að hv. flm. hefir þótt fulllangt gengið í þessu, því hann hefir borið fram miðlunartill. á þskj. 613, um 15% á prjónagarn, í stað 30%, og mætti a. m. k. ætla, að deildin vildi ganga svo langt, sem þessi miðlunartill. hv. flm. gerir ráð fyrir.

Ég hefi þá nokkurnveginn gert grein fyrir þessu máli frá hálfu n. og einstakra manna úr n. Býst ég ekki við, að ég þurfi að taka meiri hátt í umr. til meðmæla með frv., þar sem margir aðrir hv. þm. og þá fyrst og fremst flutningsmennirnir, munu vera fúsir til þess, ef ástæða er til.