04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (3340)

157. mál, verðtollur

Jóhann Jósefsson:

ég var búinn að biðja um orðið áður en þeir töluðu þessir þrír hv. síðustu ræðumenn, og er sannast að segja flestallt fram tekið af því, sem ég vildi sagt hafa. Ég vil samt sem áður, úr því að ég stóð upp, bæta mínum mótmælum við þau mótmæli, sem þegar eru fram komin gegn þessu frv. Mér finnst satt að segja, að flm. hljóti að hafa sett þetta frv. á þskj. 157 fram án verulegrar íhugunar. Þar er farið fram á að tolla nú hatt niðursoðna mjólk m. a., einnig grænmeti o. fl. o. fl. Þessar vörur hafa hingað til verið undanþegnar verðtolli, og það er svo með niðursoðna mjólk, að þrátt fyrir mjólkur framleiðslu í landinu þarf víða að flytja inn niðursoðna mjólk. Og meðan svo er, finnst mér ekki koma til mála að leggja á hana háan verðtoll. Innflutningur niðursoðinnar útlendrar mjólkur hverfur af sjálfu sér, þegar mjólkurframleiðsla landsmanna er komin í það horf, að nægileg er og sala vörunnar er komin í sæmilegt horf. Það er minnzt á það hér í grg. frv., að í Borgarfirði sé nú verið að efla mjólkurniðursuðuverksmiðju, sem þar starfi. Það er nú ekki nema ágætt, að svo er. Og ég er viss um, að þegar þessi verksmiðja kemst á það stig, að hún hefir góðar vörur að bjóða fyrir sanngjarnt verð, þá verða alls ekki nein vandræði að finna kaupendur. Ég hygg, að áður hafi þessi tilraun ekki verið framkvæmd með nægilegum hyggindum. Sérstaklega var mikill misbrestur á því, hvernig mjólkin frá verksmiðjunni gafst. Ég get talað um þetta af persónulegri reynslu. Ég hefi staðið að því í fleiri skipti að kaupa mjólkursendingar frá þessari verksmiðju, en alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Virtist það alltaf vera eitthvað, sem gerði það að verkum, að mjólkin geymdist mjög illa. Vonandi verður úr þessu bætt, og eftir því, sem flm. segja í grg. frv., ætti nú að mega vona, að þessi mjólk verði samkeppnisfær við útlenda mjólk, og þá veit ég, að hún ryður sér braut af sjálfu sér. Ég held satt að segja, að það sé ómögulegt að halda því fram, að fólkið vilji yfirleitt heldur erlenda voru en íslenzka, þegar hin íslenzka stendur hinni erlendu jafnfætis. Það virðist vera auðvelt að fá fólk til að kaupa íslenzkar matvörur, þegar þær standa hinum erlendu á sporði. má t. d. nefna, hversu íslenzka smjörlíkið hefir þurrkað allt erlent smjörlíki af markaðinum. Ég hefi ekki skýrslur um það, hve mikið hefir verið unnið hér af niðursoðinni mjólk síðastl. ár, en árið 1930 hafa verið flutt inn yfir 400 þús. kg. af þeirri vöru, og ég fullvissa hv. flm. þessa frv. um það, að enginn gerir það að gamni sínu að panta þetta frá útlöndum. Þetta er flutt inn í sjóþorpin víðsvegar um land, vegna þess að þörfin er fyrir það. Og meðan svo er, eins og upplýsingar frá hagstofunni sýna, að þörf er fyrir innflutning niðursoðinnar mjólkur í landið, getur ekki komið til mála að gera fólkinu í kaupstöðunum erfiðara fyrir með því að skattleggja þessa vörutegund, hvað sem framkvæmdum þeirra í Borgarfirði líður. Það er gott til þess að vita, að þeir starfræki sína verksmiðju vel, en það er ótímabært að fara strax að leggja verndartoll á fyrir þær vörur. Er um þetta nokkuð sama að segja og var með kartöflurnar hér á dögunum, þegar þessir sömu hv. flm. vildu banna innflutning á erlendum kartöflum, þótt vitað sé, að landsmenn framleiða hvergi nærri nógar kartöflur til eigin þarfa.

Þá vildi ég aðeins minnast á grænmeti, en það vilja flm. setja í það háan verndartoll, að það yrði sama sem ókaupandi.

Grænmetisat hefir ekki verið mjög mikið hér á landi, en nú virðist það fara mjög í vöxt, og er gott til þess að vita, að íslendingar bera meira skyn en áður á að borða holla fæðu. Og þótt lítilsháttar ræktun á grænmeti eigi sér stað hér á landi, þá gengur það barnaskap næst, sérstaklega fyrir flm., sem er einn aðalgrænmetisframleiðandi á landinu og veit vel, hve mikið er ræktað, að koma með sama sem innflutningsbann á þessar vörur á þessu stigi málsins. Auk þessa er það fremur „taktlaust“, að menn skuli vera að koma með lagaboð, sem verður varla sett nema í náið samband við eigin hagsmuni. Sem sagt er það að minni hyggju óviturlegt að leggja hömlur á það, að grænmetisneyzla aukist með þjóðinni, með því að leggja toll á útlent grænmeti. Ætti þá a. m. k. að vera hægt að sýna fram á það, að grænmetisframleiðsla væri næg í landinu. En því er ekki til að dreifa. Bíð ég hv. þm. Borgf. að leggja ekki orð mín út á sama veg og þegar rætt var um innflutningsbann á kartöflum. Sagði ég þá, að fyrsta skilyrðið væri það, að hægt væri að sýna, að nóg væri ræktað í landinu sjálfu. Sagði hann, að með þessu hefði ég skrifað undir verndartollastefnuna. En það geri ég ekki, þótt ég segi þetta.

Að því er grænmetið snertir, sýnist það vera sæmileg vernd fyrir þá, er rækta það, að á hið útlenda grænmeti leggst ný fragt, vörutollur og hafnargjöld. Ætti þetta að vera nóg til þess, að sjá mætti þessa voru í friði, svo að ekki væri verið að elta hana með 30% verðtolli í ofanálag.

Að því er snertir prjónagarn, hafa aðrir sagt það, sem ég vildi sagt hafa. Mun ég greiða atkv. á móti þessu, eins og hv. þm. Seyðf. og hv. 4. þm. Reykv.