25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (3364)

226. mál, jarðræktarlög

3364Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það eru ekkert annað en söguleg rök, sem valda því, að upp hefir verið tekinn sá hattur hér að fela sérstökum félögum framkvæmd sérstakra málefna, sem eins gætu fallið undir stjórnarráðið. Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélagið koma í stað deildar í stjórnarráðinu, er hefðu með höndum málefni sjávarútvegs og landbúnaðar.

Ég er alveg samþykkur þessu fyrirkomulagi. Ég álít, að meiri trygging sé fyrir því, að starfað sé að málum með meiri áhuga á þennan hátt en ella. En ég er hræddur um, að sú sókn og ágengni af hálfu annars þessa félags, sem einna ljósast kemur fram í þessu frv., geti orðið til þess, að sterk stefna myndist í þá átt að draga þessi mál alveg undir stjórnarráðið. Það er svo með þennan rétt eins og annan, að bezt er að halda á honum í hófi. Því hefi ég jafnan verið þessu frv. andvígur. Ég tel eðlilegt, að Alþingi eigi beinan þátt í kosningu stjórnar þessa félags, þegar litið er á starfssvið félagsins. En hitt eru þó veigameiri ástæður, að Búnaðarfél. er fengið mikið fé í hendur og það hefir úthlutun á enn meira fé frá ríkinu. Það er því engin furða, þótt Alþingi vilji hafa einhverja íhlutun um það, hvernig þessu fé er varið. Frv. ætlar að bæta Alþingi upp íhlutunarmissi sinn með tveim stjórnskipuðum endurskoðendum. En allir sjá muninn á því að hafa íhlutun um, hversu með fé er farið, eða hafa aðstöðu til að sjá eftir á, hvernig hefir verið farið með það. Þetta er því í sjálfu sér einskis virði.

Mér virðist blasa við, ef svona verður að farið, að búnaðarþingið eigi eitt að raða stjórn Búnaðarfél., að hæglega geti orðið árekstur milli búnaðarþings og Alþingis, t. d. ef endurskoðandi lætur í ljós óánægju, en fær ekki till. sínum framgengt. Þessi árekstur getur auðvitað aðeins orðið öðrum aðiljanum til ills. Það er eins og hugvitsmaðurinn Stephenson sagði, er hann var spurður, hvernig færi, ef kýr stæði á járnbrautinni fyrir lestinni. Hann kvað það myndi verða verst fyrir kúna sjálfa. Eins myndu árekstrar á milli Alþingis og Búnaðarfélagsins verða verstir fyrir hið síðarnefnda. Alþingi hefir fjárráð fálagsins í hendi sér og getur skammtað úr hnefa. Ég álít harla íheppilegt að skapa möguleika til slíkra árekstra, og óska að hv. þdm. vildu hugsa sig um tvisvar áður en þeir stofna til þeirra með því að greiða frv. atkv.