15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (337)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Það var nú sérstaklega til hæstv. fjmrh., sem ég ætlaði að segja nokkur orð, en hann er nú víst ekki við í d. (Margir: Jú, hann er kominn). — Já, það var til hans, sem ég vildi beina nokkrum aths. Annars greinir okkur nú orðið ekki svo mjög mikið á, því hann reyndi ekki að hrekja það, sem ég hafði sagt, að þetta væri sanngjarnt, heldur talaði mest um þörfina á að bæta vegina og samgöngurnar í landinu. Um þetta er ég honum algerlega sammála. Það er mikil þörf á því að bæta vegina og samgöngurnar. Og ég er honum þakklátur fyrir það, að hann hefir lýst yfir því, að það sé sanngjarnt, að héruðin þarna fyrir austan njóti styrks til samgangna á móts við önnur héruð landsins.

Ég er líka hæstv. ráðh. sammála um það, að till. okkar er ekki byggð á því, að við vitum nákvæmlega, hve miklu skatturinn muni nema, sem leggst á flutningana til þessara sveita; til þess hefði þurft lengri tíma en við höfum haft, og munum við þar af leiðandi reyna að prófa þetta betur, hve hár hann muni verða. Hinsvegar er það vitanlegt, að það verður mismunandi á hverjum tíma, hvað skatturinn verður hár, og fer eftir því, hve flutningarnir verða miklir. Það er þess vegna miklu réttlátara og eðlilegra, að styrkurinn miðaðist við það, hve skatturinn er mikill, heldur en að hann sé fast ákveðin krónuupphæð.

Það er alls ekki rétt, sem haldið hefir verið fram, eða er a. m. k. alveg ósannað mál, að þessi till. sé borin fram af þm. frá þeim héruðum, sem hafa fengið mesta vegi, á stórum hluta þessa svæðis, hagar einmitt svo til frá náttúrunnar hendi, að það hefir óvíða verið minna kostað til vega eða samgangna en einmitt þar. Við getum aðeins hugsað okkur allar þær torfærur, sem eru þarna svo víða, og miklu meiri en annarsstaðar, og engu hefir verið kostað til vega eða brúa á.

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að þessi skattur væri lagður á erlendis, og sagði, að þegar talin væri þörf á að leggja hann á þar, sem vegirnir væru góðir og þéttbýli mikið, hversu mikil væri þá ekki þörfin fyrir hann hjá okkur, þar sem strjálbýli væri mikið, en vegir vondir. Ég held nú, að þetta sanni alveg eins mikið mitt mál og hans. þegar hæstv. fjmrh. hefir viðurkennt þörfina á því, að erlendis væru flutningar styrktir, hversu miklu meiri er þá ekki þörfin fyrir það, að flutningar séu styrktir í hinu mikla strjálbýli hjá okkur, og með þeim erfiðleikum, sem hér er við að stríða í samgöngum?

Annars sé ég nú ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta, en mun nú, vegna yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um, að hann sé hlynntur sérstökum flutningastyrk til þessara héraða í fjárl., og í samráði við aðra flm. till., draga hana til baka til 3. umr., og með tilliti til yfirlýsingar og loforðs hæstv. fjmrh. um að vinna að því, að sérstök fjárveiting í þessu skyni komist inn í fjárl., sjá hverju fram vindur í þessu efni, þar til við 3. umr., einnig í trausti þeirra góðu undirtekta, sem ýmsir aðrir hv. þm. hafa látið uppi. Ég vil því sjá, hversu gengur að fá þennan styrk inn í fjárl., þar til málið kemur til 3. umr., og mun þá koma með till. aftur, ef ekki semur.