15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil lýsa yfir því, eins og meiri hluti n., að ég er fylgjandi till. hv. 2. þm. Reykv.; hún er aðeins nánari skýring á því, sem til var ætlazt í frv.

Að öðru leyti skal ég játa það með hv. þm. V.-Sk., að þau héruð, sem hafa litla vegi, en mikla sanda, sem bílfærir eru, verða harðast úti af þessum skatti. En það verður þá að vera huggun okkar, að viðhald og umbætur komi örar, ef bílaskatturinn nær fram að ganga. Og hv. þm. V.-Sk. hefir þá aðstöðu á næstu þingum að geta minnt á, þegar vegamál eru til umr., að héraðið eigi þarna sanngirnisrétt til aukinna framlaga til vega. Hitt verður ríkið alltaf að gera, að taka skatta eftir vissum allsherjarreglum, og útdeila þeim svo aftur, en við útdeilinguna má jafna nokkuð af misréttinu. Slíkar ástæður koma til greina að því er þetta snertir, þegar rætt er um vegamál.

Ég vil þakka hv. flm. till. á þskj. 97 fyrir, að þeir draga hana til baka til 3. umr. Ég get viðurkennt víst réttmæti hennar, en hefi talið óheppilegt að miða slíkan bílastyrk við allt landið. Ef það væri hægt að finna einhverja reglu fyrir því, hvað mikið þessum héruðum bæri af skattinum, þá hefði verið réttara að miða styrkinn við þessi héruð. En þar sem ókleift er að finna nokkra slíka reglu, hefir mér þótt réttara að taka styrkinn upp í sambandi við fjárl., með sérstakri fjárveitingu. Ég skal þó geta þess að auki, að þó að slíkir flutningastyrkir verði ræddir í sambandi við fjárl., þá má vera, að viðkomandi héruð færi fram á hærri styrk en ég sé mér fært að mæla með. En allt slíkt verða þeir að leggja í hættu, enda er talsvert eftir af meðferð þessa máls, og má enn koma að breytingum, þó að það yrði þá líklega helzt í Ed.

Ég vil svo þakka undirtektirnar undir málið, er þær eru nú orðnar svo góðar, að ég geri mér nú von um sæmilega afgreiðslu.