01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3410)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Magnús Torfason:

Það hefir nú um stund staðið nokkur gjóstur af Snæfellsjökli hingað í deildina. Við höfum fundið það í dag, að hann andar á norðan, og lítur út fyrir, að þetta litla frv., sem hér er til umr., eigi að fá að kólna úti í þessu norðanhreti. Það er fundið að þessu frv., að það leiði til útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég get ekki neitað því, að svo kunni að fara. En hitt er ég viss um, að það leiðir ekki til útgjalda fyrir þjóðina, síður en svo. Ég er ekki í vafa um það, að ef komið verður upp sæmilegri geymslu fyrir jarðepli og aðra garðavexti hér í Rvík, þá mundi verða stórgróði að því fyrir þjóðina, þegar fram í sækir, og reyndar að nokkru leyti nú þegar. Ég hélt, að hv. 2. landsk. kynni samkv. stöðu sinni, að meta þýðingu þess hér á Alþingi, að stefnt sé að því að spara erlendan gjaldeyri. Mér virðist þetta sparnaðarhjal, sem verið er með hér í sambandi við þetta mál, hafa við heldur lítið að styðjast, þar sem hv. frsm. n. hefir lýst því yfir, að það sé ætlazt til þess, að stj. hafi fullt vald til þess að nota bráðabirgðákvæði frv. Enda sé ég ekki betur en í orðun þessa ákvæðis, sem hefst þannig: „Meðan ekki verður við komið —“ o. s. frv., felist fullt leyfi til þess að byggja ekki kjallarann fyrr en ríkissjóður hefir virkilega ráð á því. En að hv. 2. landsk. sé á móti því, að ráðizt verði í framkvæmdir, sem til þjóðþrifa geta orðið, ef fé er fyrir hendi til þess, því get ég ekki trúað, eftir stefnu hans hér á þingi fyrr og síðar.

En það er eitt, sem ég vil benda á í sambandi við þetta mál. Hér er ekki aðeins að ræða um sparnaðarmál og atvinnumál fyrir þjóðina, heldur má líka jafnvel telja það heilbrigðismál. Útlendu kartöflurnar, sem fást hér á vorin, eru, ef þær eru ekki keyptar með sérstöku okurverði, alls ekki góður matur. Íslenzku kartöflurnar geymast betur en þær útlendu, ef þær eru í sæmilega heppilegri geymslu, og verða því hollari og betri fæða.

Ég man ekki betur en að með næsta viku eigi að byrja svokölluð íslenzk vika og að þá eigi að leggja áherzlu á að auka og nota innlendar afurðir. Ég vil nú skjóta því til hv. d., að hún leyfi frv. þessu í dag að ganga til 3. umr. og til hæstv. forseta að hann taki það aftur á dagskrá á mánudaginn kemur, og geta þá hv. dm. byrjað vikuna með því að drepa frv. Væri það allsæmileg byrjun á hinni svokölluðu íslenzku viku, sem hér á að stofna til.