01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (3412)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Jón Baldvinsson:

Maður skilur auðvitað, að hv. 2. þm. Árn. er þetta kappsmál, því það kemur eflaust að gagni einhverjum mönnum í hans héraði. En mér finnst maður verði fyrst og fremst að líta á, hvað kemur að gagni landsmönnum í heild. Ég verð að segja, að ég er hálfhræddur við allan þennan yfirgang kartöflumannanna hér á þinginu, sem greinilegast hefir komið fram í hv. Nd., þegar farið var fram á að banna algerlega innflutning á kartöflum hluta af árinu. Það er líka svo í þessu frv., að ákveðið er, að aðeins skuli geymdar íslenzkar kartöflur í fyrirhuguðum kjallara. Í þessu máli ætti fyrst og fremst að líta á það, að landsmenn geti fengið sem beztar og ódýrastar kartöflur. Og því gæti þá ekki komið til mála að kaupa kartöflur frá útlöndum á þeim tíma, sem þær eru ódýrastar, og geyma þær hér til þess tíma, sem óskemmdar kartöflur fást ekki nema fyrir okurverð. Aðalatriðið er, að neytendur fái þessa vöru sem bezta og ódýrasta, en mér skilst þetta frv. eins og það liggur fyrir muni ekki hafa áhrif í þá átt, og það muni ekki vera tilgangurinn með því.

Hv. þm. sagði, að ég yrði að líta á nauðsynina á að minnka innflutning á erlendri veiru. Það stendur nú svo á á þessum krepputíma, að skortur er á erlendum gjaldeyri til að kaupa fyrir nauðsynjar okkar frá útlöndum. Flestir vona, að þetta sé aðeins tímabil, sem við þurfum að komast yfir með því að kaupa sem minnst inn. Nú held ég, að þó frv. þetta yrði samþ., mundi það engin teljandi áhrif hafa á kartöfluinnflutninginn.

Á yfirstandandi og næsta ári. Aftur á móti þyrfti að kaupa efni til byggingarinnar frá útlöndum. Er því þetta mál mjög vafasamt frá sjónarmiði gjaldeyrisverzlunarinnar.

Ég sé ekki, að hv. 2. þm. Árn. og hv. 3. landsk. hafi bent á nokkra ástæðu, sem gerir það nauðsynlegt að ráðast í þessar framkvæmdir nú. Ef stj. gengist fyrir því að reisa slíka byggingu, mundi hún sennilega verða afhent einhverju kaupfélagi eða kartöfluhring, sem tæki svo kartöflusöluna í sínar hendur. Allar hugleiðingar hv. 2. þm: Árn. út af íslenzku vikunni minna mann dálítið á vísuorðin „Bara ef lúsin íslenzk er, er þér bitið sómi“. Ég veit ekki, hvort hv. sessunautur minn (MT) trúir sjálfur á þetta, en gott er að heyra, að þrátt fyrir allan norðannæðinginn hér andar þó hlýjum sunnanblæ frá honum.

Ég vildi gjarnan, að dagskrá hv. 2. þm. Eyf. yrði samþ. En ég veit ekki, hvort þörf er að hafa í henni orðin „ríkissjóði að kostnaðarlausu“. Ég veit ekki, hvort stj. gæti nokkuð gert með því móti, hvort hún mætti einu sinni ljá ráðunauta sína til að starfa að þessu. Ég vil því skjóta því til hv. 2. þm. Eyf., hvort hann vill ekki fella þessi orð niður úr dagskránni. Þá gæti ríkisstj. veitt aðstoð sína án þess að leggja fram þær 40 þús. kr., sem eftir frv. á að veita. Annars hefði verið æskilegra, að hæstv. fjmrh. hefði verið hér viðstaddur við þessa umr., svo spyrja mætti hann, hvort nokkrar líkur eru til, að frv. kæmi til framkvæmda að svo stöddu, þó samþ. væri, hvort ríkissjóður hefir nokkurt fé til að leggja í þetta. Mér þætti fróðlegt að heyra úr ráðherrastól, hvað stj. hugsar sér um framkvæmd málsins og hvort nokkurt fé sé fyrir hendi til slíkra hluta.