01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (3413)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson.):

Ég hefi því miður ekki nema að litlu leyti getað fylgzt með þessum umr., en mér skilst á öllu, að það liggi við borð, að annaðhvort verði samþ. sú rökstudda dagskrá, sem hv. 2. þm. Eyf. hefir borið hér fram, eða þá að frv. verði fellt, enda var nokkur ástæða til að búast við, að svo færi, eftir undirtektunum, sem það fékk á sumarþinginu, þegar hv. d. var eins skipuð og nú; mun það þá hafa verið fellt með sjö eða átta mótatkv.

Mér finnst, að e. t. v. væri hægt að finna einhvern meðalveg í þessu máli, sem bæði meðmælendur og andmælendur frv. gætu sætt sig við. Eins og kunnugt er, hefir hv. landbn. Nd. óskipt flutt frv. og í Nd. var það samþ. með talsverðum meiri hluta. En upphaflega er það komið frá búnaðarþinginu. Það, sem mér skilst aðallega vera þyrnir í augum hv. þm. í þessari d., er heimild frv. til að leggja út í 40 þús. kr. kostnað. En ég vil benda á, að það er nokkurt millibil milli þess að veita þá heimild og hins, að vilja ekki gefa heimild til neinna aðgerða, og inni á þeirri hugsun virtist mér hv. 2. landsk. vera, þegar hann var að tala um dagskrá hv. 2. þm. Eyf. Ég fyrir mitt leyti hafði gert ráð fyrir, að eins og nú er ástatt mundi vart verða gert annað en það, sem talað er um í bráðabirgðakvæðum frv. Ég vil því bera hér fram þá uppástungu, að hæstv. forseti taki málið út af dagskrá að þessu sinni, til þess að gefist tóm til að athuga, hvort ekki fengist samkomulag um að breyta frv. í þá átt, að gefin sé heimild til þeirra aðgerða, sem bráðabirgðaákvæðin ræða um, að stj. geti veitt kartöfluframleiðendum nokkra aðstoð, þó það hefði einhvern smávegis kostnað í för með sér. (HSteins: Hvað mikinn ?). Það mætti setja eitthvert takmark fyrir því í frv. Mér finnst, að það væri illa farið, ef þingið vill ekkert gera á þessum tímum til þess að ýta undir kartöflurækt og skapa kartöfluframleiðendum aðstöðu til að geta geymt vöru sína og haft hana á boðstólum lengri tíma en nú er.

Þetta er sú bending, sem ég vildi koma fram með, af því ég býst við, að erfitt verði að fá frv. samþ. í þeirri mynd, sem það nú er í.