11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í C-deild Alþingistíðinda. (3429)

57. mál, land Garðakirkju

Frsm. (Einar Árnason):

Það er vitanlega rétt, sem haft hefir verið orð á hér, að þetta mál var nokkuð lengi hjá allshn. Og það var, sannast að segja, meðfram af því, að n. var málinu hlynnt, en sá hinsvegar nokkra agnúa á að mæla með því, nema kynna sér það sem bezt áður, og í það fór nokkur tími. Það er rétt, sem hv. 2. landsk. sagði, að n. fór þarna suður eftir til þess að skoða landið og þau býli, sem þar eru.

Auk þess hefir allshn. haft mjög mikið að gera á þessu þingi. Hún hefir fengið til sín upp undir 40 mál og hefir þegar afgr. um 30. Hygg ég, að það hafi ekki aðrar n. í þinginu afgr. jafnmörg mál.

Af þessum ástæðum hefir þetta mál tafizt nokkuð hjá n. Ég fyrir mitt leyti hefði gjarnan óskað, að það hefði verið svo vel undirbúið, að það hefði getað gengið nú þegar gegnum þingið, svo að Hafnfirðingar hefði getað farið að taka þarna til óspilltra málanna, en eins og ástatt er, teystir n. sér ekki til að mæla með frv. óbreyttu.